Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kannaði eignarhald á DV

02.06.2015 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Fjölmiðlanefnd kannaði það þegar eigendaskipti urðu á DV hvort hluthafasamkomulag, lánasamningar eða annað væri í gildi sem hefði áhrif á yfirráð yfir eignarhaldi DV. Svarið var að svo væri ekki.

Eignarhald DV kom til umfjöllunar í dag vegna tilraunar tveggja systra til að kúga fé út úr forsætisráðherra. Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi Pressunnar og DV, sagði í dag að forsætisráðherra hefði hvorki fjármagnað kaupin né ætti hann hlut í DV.

„Við náttúrulega fengum bara upplýsingar um það að það væri ekkert hluthafasamkomulag eða neitt slíkt, ekkert sem varðaði yfirráðin. Það yrðu að berast einhver haldbær gögn til þess að nefndin myndi hugsanlega taka þetta upp og skoða,“ segir Elva Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar. „Það hafa ekki borist nein slík gögn.“

Nánar er rætt við Elvu Ýr í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 upp úr klukkan hálf sex.