Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Kannabis forheimskar fólk

28.08.2012 - 04:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Ungt fólk sem neytir kannabisefna í lengri tíma, reykir hass og marjúana, sætir gjarnan mikilli og varanlegri greindarskerðingu. Þetta er staðfest í viðamikilli rannsókn sérfræðinga á Nýja Sjálandi.

Fylgst var grannt með þúsund manns í tvo áratugi, frá barnsaldri og fram á fertugsaldur, og greind þeirra mæld. Þegar tillit er tekið til alls annars; svo sem skólagöngu, áfengisneyslu, og neyslu annarra fíkniefna, telja sérfræðingarnir að þeir sem reykja hass eða marjúana að minnsta kosti fjórum sinnum í viku í lengri tíma, skerði andlegt atgervi sitt verulega. Þetta á einkum við þá sem byrja snemma og hefja neysluna á unglingsárum þegar heilinn er enn í mótun. Þannig sé hægt að tapa átta stigum hinnar almennu greindarvísitölu.

Og því meira kannabis, því meiri greindarskerðing segja vísinamennirnir. Að auki er hún óafturkræf því skerðingin gekk ekki að fullu til baka hjá þeim sem hættu að reykja eða drógu úr neyslunni. Grein um rannsóknina birtist í vísindatímaritinu Procedings of the National Academy of Sciences.

Breskir fræðimenn segja niðurstöðuna koma fáum á óvart, það sé alkunna að árangur kannabisneytenda í hvers konar vitsmunastarfi sé snöggtum lakari en þeirra sem láti þessi fíkniefni eiga sig.