Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kanna hvort Íslendingur hafi fallið í Sýrlandi

06.03.2018 - 14:43
epa06023950 Soldiers stand guard at Raqqa city, Syria, 11 June 2017 (Issued 12 June 2017). The People's Protection Unit (YPG, part of the Syrian Democratic Forces, SDF) advanced on the neighbourhoods of al-Sabahyah and al-Jazrah in Raqqa city with
Liðsmenn SDF í Raqa í upphafi árásar á borgina í júní. Mynd: EPA
Utanríkisráðuneytið kannar nú óstaðfestar fregnir þess efnis að íslenskur karlmaður hafi fallið í stríðsátökum í Sýrlandi fyrir um hálfum mánuði. María Mjöll Jónsdóttir hjá utanríkisráðuneytinu staðfestir að þar sé verið að kanna málið og að ráðuneytið hafi fyrst heyrt af þessu í dag. Maðurinn er í tyrkneskum fjölmiðlum sagður hafa barist með Varnarsveitum Kúrda í norðvesturhluta Sýrlands gegn hersveitum Tyrkja.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu fréttu ættingjar mannsins fyrst af hugsanlegu andláti hans í gegnum samfélagsmiðla og fjölmiðla eftir hádegi. 

Tyrkneskir fjölmiðlar greina frá því að maðurinn hafi fallið í Afrín-héraði í Norðuvestur-hluta Sýrlands.  Þar hafa leiðtogar Kúrda hvatt almenna borgara til að taka upp vopn og hjálpa til við að verja héraðið gegn innrásarher Tyrkja. Afrín er eitt af þremur sjálfstjórnarhéruðum Kúrda og hluti af Rojava, ríki Kúrda sem Kúrdar vilja sameina.

Fram kemur á íslenski maðurinn hafi gengið til liðs við Rojava í júlí á síðasta ári í gegnum anarkistasamtökin RUIS sem eru að mestu skipuð grískum sjálfboðaliðum og hafa barist í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi. Íslendingurinn er sagður hafa fallið í lok febrúar á þessu ári eftir sprengjuárás tyrkneska hersins.  

Á samfélagsmiðlum er fullyrt að hann hafi barist í Raqqa en vígamenn hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins gáfust upp í baráttu um borgina í október á síðasta ári. 

Samkvæmt síðustu upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hafði eftirgrennslan ráðuneytisins engan árangur borið.

 

Þessi frétt verður uppfærð eftir því sem frekari upplýsingar berast

Mynd með færslu
 Mynd: Fréttagrafík - RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV