Kanadamennirnir formlega teknir fastir

16.05.2019 - 09:32
Mynd með færslu
Kanadamennirnir Michael Kovrig, til vinstri, og Michael Spavor. Mynd:
Tveir Kanadamenn, sem hafa verið í gæsluvarðhaldi í Kína síðan í desember, hafa verið formlega handteknir sakaðir um njósnir og að reyna að komast yfir kínversk ríkisleyndarmál. Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins greindi frá þessu í morgun. 

Kanadískir miðlar segja að þetta kunni að auka enn spennuna milli Kanada og Kína.

Michael Kovrig, ráðgjafi hjá International Crisis Group, sem áður starfaði hjá kanadísku utanríkisþjónustunni, og kaupsýslumaðurinn Michael Spavor, voru teknir höndum í Kína og færðir í gæsluvarðhald skömmu eftir að yfirvöld í Kanada handtóku Meng Wanzhou, fjármálastjóra kínverska fjarskiptarisans Huawei, að beiðni Bandaríkjamanna sem saka hana um brot á refsiaðgerðum gegn Íran. 

Meng var handtekin 1. desember, en Kanadamennirnir nokkrum dögum síðar. Bandaríkjamenn hafa óskað eftir að fá hana framselda og er verið að fjalla um það mál fyrir kanadískum dómstólum. Ráðamenn í Peking krefjast þess að Meng verði sleppt.

Að sögn fréttastofunnar AFP geta þeir Kovrig og Spavor átt yfir höfði sér langa fangelsisvist verði þeir dæmdir fyrir njósnir. AFP segir þá ekki hafa fengið að hitta lögmenn og fengið eina heimsókn í mánuði frá fulltrúa kanadíska sendiráðsins í Kína.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi