Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kanadamenn vara við ferðalögum til Haítís

15.02.2019 - 18:39
Mynd með færslu
Slökkviliðsmenn að störfum eftir að óeirðaseggir kveiktu í bílum í Port-au-Prince. Mynd:
Stjórnvöld í Kanada ráða landsmönnum frá því að ferðast til Haítís eins og sakir standa. Óeirðir í landinu að undanförnu urðu meðal annars til þess að um það bil eitt hundrað kanadískir ferðamenn lokuðust inni í ferðamannabæ. Unnið er að því í samvinnu við ferðaskrifstofu að flytja þá til síns heima.

Justin Trudeau forsætisráðherra kvaðst í dag hafa miklar áhyggjur af ástandinu á Haítí. Sendiráði Kanada í höfuðborginni Port-au-Prince hefur verið lokað tímabundið vegna blóðugra mótmælaaðgerða stjórnarandstæðinga. Þeir eru æfir vegna verðbólgu sem farið hefur úr böndunum. Þá krefjast þeir þess að Jovenel Moise forseti segi af sér.

Moise lýsti því yfir í dag í viðtali við ríkissjónvarpið í Port-au-Prince að það hvarflaði ekki að honum að fela vopnuðum stigamönnum og eiturlyfjasmyglurum völdin í landinu. Mótmælin hafa staðið í eina viku og kostað að minnsta kosti sjö manns lífið.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV