Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kambódía skilar 1600 tonnum af plastrusli

18.07.2019 - 21:05
Erlent · Asía · Kambódía · Plast · Umhverfismál
Mynd með færslu
 Mynd: Associated Press - AP
Kambódísk yfirvöld hyggjast senda 1600 tonn af plastúrgangi aftur til Bandaríkjanna og Kanada. Þetta er liður í átaki landa í Suðaustur-Asíu gegn endalausum ruslsendingum Vesturlanda til álfunnar.

Ruslið fannst í vöruflutningagámum á höfninni í bænum Sihanoukville í Kambódíu. Allt í allt voru gámarnir 83 talsins, 70 frá Bandaríkjunum og 13 frá Kanada. 

Kambódía er ekki fyrsta landið í Asíu sem fær nóg af yfirfullum ruslagámum frá Norður-Ameríku og Evrópu. Indónesía sendi tugi gáma með rusli aftur til Frakklands og Ástralíu fyrr í þessum mánuði og Malasía sendi 3000 tonn af innfluttum plastúrgangi aftur til Bandaríkjanna, Bretlands, Kanada og Ástralíu í maí. 

Á síðasta ári hættu Kínverjar að taka á móti plastrusli frá öðrum löndum til endurvinnslu en sú ákvörðun hafði miklar afleiðingar fyrir endurvinnslu á heimsvísu, sér í lagi fyrir Vesturlönd sem lentu þá í vandræðum við að losa sig við ruslið. 

Að sögn náttúruverndarsamtakanna Worldwide Fund of Nature eru árlega framleidd um 300 milljón tonn af plasti. Stór hluti þess er urðaður eða endar í sjónum. 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV