Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kallas veitt umboð til stjórnarmyndunar

05.04.2019 - 11:00
Erlent · Eistland · Evrópa
epa07414521 Leader of the Estonian Reform Party, Kaja Kallas attends a press conference in Tallinn, Estonia, 05 March 2019. The center-right Reform Party won the parliamentary election on 03 March with 29.4 percent of the vote, setting up its leader Kaja Kallas to become the country's first ever female prime minister as long as negotiations with other parties will create a government coalition.  EPA-EFE/VALDA KALNINA
Kaja Kallas, leiðtogi Umbótaflokksins í Eistlandi. Mynd: EPA-EFE - EPA
Kaja Kallas, leiðtogi Umbótaflokksins í Eistlandi, hefur verið falið að mynda nýja ríkisstjórn landsins. Takist henni að mynda stjórn verður hún fyrst kvenna í Eistlandi til að gegna þar embætti forsætisráðherra.

Umbótaflokkurinn hlaut flest atkvæði í þingkosningunum í Eistlandi í síðasta mánuði, en Miðflokkurinn, sem hefur verið í forystu í ríkisstjórn síðasta kjörtímabil, varð í öðru sæti.

Að sögn fréttastofunnar AFP getur það reynst Kallas erfitt að mynda meirihlutastjórn. 

Juri Ratas, leiðtogi Miðflokksins og fráfarandi forsætisráðherra, hafi hafnað ríkisstjórnarsamstarfi við Umbótaflokkinn, en gert í staðinn samkomulag við þjóðernisflokkinn EKRE og íhaldsflokkinn Pro Patria eða Isamaa.

Í gær var Henn Polluaas, fulltrúi EKRE, kjörinn forseti eistneska þingsins með 55 atkvæðum af 101. 

Kersti Kaljulaid, forseti Eistlands, hefur lýst yfir áhyggjum af hugsanlegri þátttöku EKRE í stjórn. Hún sagðist í morgun vilja gefa Kallas, sem leiðtoga stærsta flokksins á þingi, tækifæri til að mynda stjórn. 

Kallas hefur þegar boðið Jafnaðarmönnum til stjórnarmyndunarviðræðna, en saman hafa flokkarnir einungis 44 þingsæti.

Fréttastofan AFP segir að stjórnmálaskýrendur telji hins vegar mestar líkur á stjórnarsamstarfi Miðflokksins, EKRE og Pro Patria. Mart Helme, leiðtogi EKRE, hafi á dögunum hótað óeirðum næðist ekki samkomulag milli flokkanna.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV