Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kallar eftir stefnu um fólk með heilabilun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Engin stefna hefur verið mótuð hér á landi í málefnum einstaklinga með heilabilun og engar tölur eru til um raunverulegan fjölda einstaklinga með heilabilun hérlendis, hvað þá um beinan og óbeinan kostnað um meðferð og umönnun þeirra. Þetta kemur fram í ritstjórnargrein Steinunnar Þórðardóttur, sérfræðings í öldrunarlækningum á Landspítala, í Læknablaðinu.

Steinunn segir í greininni að mikið úrræðaleysi sé í málaflokknum sem valdi sjúklingum með heilabilunarsjúkdóma og aðstandendum þeirra ómældum þjáningum. „Í þessum skrifuðu orðum eru 200 einstaklingar á bið eftir sérhæfðri dagþjálfun á höfuðborgarsvæðinu og geta þeir átt von á að þurfa að bíða í allt að tvö ár. Á tveimur árum getur orðið mikil afturför í sjálfsbjargargetu einstaklings með heilabilun sem leiðir til þess að margir eru orðnir of veikir til að nýta sér úrræðið þegar að þeim kemur og hafa þá eytt þessum tíma heima, oft undir sólarhringseftirliti örþreyttra aðstandenda,“ segir í grein Steinunnar.  

Bið eftir hjúkrunarrými sé einnig óhóflega löng og valdi því að margir sjúklingar með heilabilun hrekist á milli mismunandi deilda innan Landspítala mánuðum saman áður en þeir komist loks í örugga höfn. Steinunn segir í greininni að vandinn liggi í augum uppi og að ætla að mætti að róið væri að því öllum árum að bæta úr því ófremdarástandi sem nú ríki og búa sig undir fyrirsjáanlega fjölgun fólks með heilabilun. „Svo er þó ekki. Enn hefur engin stefna verið mótuð í málefnum einstaklinga með heilabilun hér á landi. Engar tölur eru til um raunverulegan fjölda einstaklinga með heilabilun hérlendis, hvað þá um beinan og óbeinan kostnað við meðferð og umönnun þeirra,“ segir í greininni. Ekkert bóli á auknum úrræðum á sviði heimahjúkrunar, sérhæfrar dagþjálfunar og fjölbreyttra búsetuúrræða fyrir fólk með heilabilun. 

Hér má lesa greinina í Læknablaðinu í heild sinni.