Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Kallað eftir upplýsingum

07.01.2011 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir að kallað hafi verið eftir upplýsingum frá indverskum stjórnvöldum um að íslensk hjón fari með forræði yfir dreng sem staðgöngumóðir á Indlandi ól þeim í nóvember. Hann vonast til þess að upplýsingarnar, sem séu forsenda þess að unnt sé að veita drengnum vegabréf, berist fyrir mánaðamót.

Þau Einar Þór Færseth og Helga Sveinsdóttir fengu indverska konu til að ganga með barn fyrir sig. Drengurinn, Jóel, var getinn með tæknifrjóvgun úr eggi þriðju konunnar konunnar og sæði Einars. Þrátt fyrir að Alþingi hafi veitt Jóel íslenskan ríkisborgararétt fyrir jól hefur innanríkisráðuneytið hér ekki veitt honum vegabréf. Helga segir erfitt að bíða í óvissu. Þeim hjónum líði nánast eins og glæpamönnum, því þau fái ekki að koma heim til sín.


Helga segir að hún og Einar hafi árum saman reynt að eignast barn með tæknifrjóvgun og beðið nokkur ár eftir að fá að ættleiða barn en ekkert gengið. Þá hafi læknir þeirra hér á landi hvatt þau til að skoða staðgöngumæðrun. En könnuðu Helga og Einar það þá hjá íslenskum stjórnvöldum hvort þau kæmust heim með drenginn? Helga segir að þau séu ekki þau fyrstu sem leiti eftir þessari þjónustu í útlöndum. Þau áttuðu sig hins vegar ekki á barnið þeirra yrði vegalaust, hvorki íslenskt né indverskt.


Ögmundur Jónasson, segir brýnt að tryggja réttarstöðu drengsins til framtíðar. Hann segir svona mál ekki einföld og hann viti til þess margir ríkisborgarar annarra landa eigi í sömu vandræðum. Það sem hann segir sérstakt við þetta mál er að litli drengurinn er búinn að fá íslenskan ríkisborgararétt. Innanríkisráðuneytið vilji hins vegar fá staðfestingu á því að barnið hafi ekki jafnframt indverskan ríkisborgararétt. Ráðherrann vonast til þess indversk stjórnvöld veiti upplýsingarnar fyrir mánaðamót.