Kallað eftir samstöðu gegn umskurði kvenna

05.02.2016 - 04:47
Erlent · UNICEF
Mynd með færslu
Umskurn stúlkna er útbreitt vandamál í hluta Afríku, m.a. í Úganda, þar sem þessi mynd er tekin. Mynd: Amnon Shavit - WikimediaCommons
Að minnsta kosti 200 milljónir kvenna og stúlkna í 30 löndum eru umskornar samkvæmt nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. Helmingur þeirra kemur frá þremur löndum, Egyptalandi, Eþíópíu og Indónesíu. Á morgun er alþjóðlegur dagur umburðarleysis gegn umskurn kvenna.

Nokkrar aðferðir eru notaðar við umskurn kvenna og eru þær mismunandi eftir samfélögum. Allar brjóta þær gegn réttindum barna. Í flestum löndum eru aðgerðirnar framkvæmdar áður en stúlkur ná fimm ára aldri. Að sögn Geeta Rao Gupta, aðstoðarframkvæmdastjóra UNICEF, valda nokkrar þeirra lífshættulegum kvillum. Hún segir alla þurfa að vinna saman að því markmiði að aðgerðunum verði hætt, stjórnvöld, heilbrigðisyfirvöld, samfélagsleiðtogar, foreldra og fjölskyldur.

Talið var að um 130 milljónir stúlkna og kvenna væru umskornar árið 2014, en hækkunina á milli ára má rekja til fólksfjölgunar og gagnasöfnunar í Indónesíu. 

Víða er umskurn kvenna á miklu undanhaldi. Samkvæmt UNICEF eru 41 prósent færri stúlkur á aldrinum 15 til 19 ára umskornar í Líbýu en fyrir 30 árum, 31 prósent í Búrkína Fasó, 30 prósent í Kenýa og 27 prósent í Egyptalandi. Frá árinu 2008 hafa yfir 15.000 samfélög og héruð í 20 ríkjum greint frá því opinberlega að þar sé hætt að framkvæma slíkar aðgerðir á konum. Í fimm ríkjum er glæpsamlegt að umskera konur. Samkvæmt skýrslu UNICEF er meirihluti landsmanna andvígur umskurði kvenna í þeim löndum þar sem aðgerðin er lögleg.

Þrátt fyrir aukna vitund og aðgerðir víða dugar það ekki til, því fólksfjölgun er svo mikil í þessum ríkjum að tala umskorinna kvenna á eftir að hækka næstu 15 árin að sögn UNICEF.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi