Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kalla eftir að Verðlagsstofa verði lögð af

04.12.2019 - 20:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda sendu frá sér ályktun á aðalfundi sínum í lok nóvember þar sem skorað er á stjórnvöld að leggja af Verðlagsstofu skiptaverðs. Hún ýti undir misskiptingu meðal sjómanna, spillingu, óttastjórnun og alvarlegan samkeppnismismun.

 „Alvarleg félagsleg undirboð í skjóli stjórnvalda eiga sér stað í sjávarútvegi á Íslandi og stjórnvöldum ber að stöðva það umsvifalaust. Fyrsta skref í þá átt væri að tryggja eitt uppgjörsverð til allra sjómanna landsins. Það er best gert með því að leggja niður Verðlagsstofu og hefja uppgjör afla samkvæmt raunverulegu markaðsverði.“ segir í ályktuninni.

Skapar félagslegt undirboð

Arnar Atlason, formaður stjórnar SFÚ segir í samtali við fréttastofu að mismunur á milli þess verðs á fiski sem sé á markaði og þess verðs sem Verðlagsstofa skilaverðs leggi til skapi félagslegt undirboð  og sé til þess fallin að minnka verðmæti sjávarafurða.

„Aðalástæða þess að við viljum leggja niður Verðlagsstofu skiptaverðs er sú að hún ýtir undir félagsleg undirboð. Markmið með stofnun hennar á sínum tíma var að ná sáttum um verðlagsmál sjómanna. Frá stofnun hennar hefur hún ekki uppfyllt þær skyldur sínar.“

Verðlagsstofa skiptaverðs tók til starfa árið 1998. Hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs er að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna 

Í ályktun SFÚ segir „Það er óþolandi og ólíðandi að hægt sé að stjórna tekjustofni þeim sem notaður er til grundvallar útreiknings hafnargjalda og launa sem svo leiða af sér skattstofn sem er rangur.Sýnt hefur verið fram á að munur á þessum tekjustofni getur verið allt að 40%. Kerfið er klæðskerasaumað fyrir kvótafyrirtæki sem vinna eigin afla, sjómenn búa við óttastjórnun. Fiskvinnslum án aflaheimilda er kerfisbundið verið að útrýma og atvinnuleysi eykst fyrir vikið. Lágmarkskrafa ætti að vera að uppgjör sé það sama hjá sjómönnum, sama hvar landað er.“ 

Forsendur sagðar brostnar

Arnar segir að fyrirtæki sem ráða ekki yfir veiðiheimildum standi höllum fæti vegna stofnunarinnar gagnvart þeim fyrirtækjum sem halda á veiðiheimildum.

„Afleiðing undirverðlagningar stofnunarinnar er sú að grundvallar forsendur samkeppni í sjávarútvegi á Íslandi er brostnar. Þau fyrirtæki geta haft bein áhrif á gjöld sín og afkomu, slíkt getur ekki talist eðlilegt.“ segir Arnar.

Í ályktuninni er vísað til Í álits Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2012 þar sem segir að fulltrúar í verðmyndunarnefnd ættu að vera hlutlausir aðilar til þess að verðmyndun gæti verið eðlileg. Þá er bent á að í nefndinni í dag sitji fulltrúar sjómanna og útgerða en engir hlutlausir aðilar. Ráðherrar sem setið hafa í embætti síðan 2012 hafi ekki brugðist við álitinu á nokkurn hátt.