Kaleo hlaða batteríin á Íslandi

Mynd: Skjáskot / Kastljós

Kaleo hlaða batteríin á Íslandi

20.12.2016 - 17:24

Höfundar

„Þetta er búið að vera mikið ævintýri,“ segir Jökull Júlíusson, söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Kaleo, sem hefur átt ótrúlegri velgengni að fagna á árinu sem er að líða. Plata sveitarinnar, A/B, hefur komist á topp 10 í 19 löndum og selst í yfir 200 þúsund eintökum. Þá hefur lögum sveitarinnar hefur verið streymt yfir hundrað milljón sinnum á Spotify. Á dögunum valdi Billboard vinsældarlistinn Kaleo bestu nýju rokksveitina á árinu.

„Ætli við höfum ekki verið að spila 300 gigg á ári undanfarin tvö ár. Þetta hefur verið stanslaust tónleikaferðalag aðallega,“ segir Jökull, en hljómsveitin er í stuttu fríi á Íslandi yfir jólin. 

Flöggum því stoltir hvaðan við erum

En hvernig fóru nokkrir strákar úr Mosfellsbæ að því að slá í gegn í Bandaríkjunum, vöggu blústónlistar, með þvottekta suðurríkjarokk? 

„Ég held að þetta sanni bara það að geti hver sem er spilað blús saman hvaðan hann er. Við höfum fengið virkilega góð viðbrögð. Fólk kveikir kannski ekki á því í fyrstu að við séum íslensk hljómsveit en við flöggum því stoltir þegar við höfum tækifæri á.“ 

Upp í bústað að semja nýtt efni

 Jökull segir að álagið sé mikið og það geti verið lýjandi til lengdar að halda tónleika kvöld eftir kvöld og sofa í rútunni á meðan ekið er til næstu borgar. 

„Þess vegna er gott að komast heim. Við fáum að halda jól hérna heima, vonandi að maður komist upp í bústað að semja og undirbúa næstu plötu. 
Ég reyni að koma heim eins oft og ég get. Það hefur verið minna en ég hefði viljað en það er mjög nauðsynlegt að fá tíma til að hlaða batteríin.“

Hefur gengið mjög hratt fyrir sig

Hann viðurkennir að þessi mikla velgengni hafi komið honum á óvart. „Það er rosalega magnað að fara í nýtt land og nýjar borgir og spila tónlist og allir syngja með. Það er svolítið sérstök tilfinning. Þetta hefur gengið mjög vel en mjög hratt fyrir sig. Fyrir nokkrum árum vorum við heima í bílskúr að æfa og spila. Þetta er búið að vera mikið ævintýri.“ 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Kaleo í þriðja sæti á lagalista Billboard

Mynd með færslu
Menningarefni

Kaleo gerði myndband á ísjaka á Fjallsárlóni

Popptónlist

Bítlasál + Kaleo + mr. Young

Innlent

Kaleo beint í 15. sæti á Billboard listanum