Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kaldhæðnisleg og súrrealísk niðurstaða

17.05.2019 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Siðanefnd Alþingis hefur komist að því að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hafi brotið siðareglur þingsins. Hún segir siðanefndina vaða í villu þegar kemur að því að vernda tjáningarfrelsi. Niðurstaðan sé kaldhæðnisleg og súrrelísk í ljósi aðstæðna.

Siðanefnd Alþingis hefur komist að því að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata hafi brotið gegn siðareglum með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson í Silfrinu í febrúar. Hún sagði að það væri rökstuddur grunur að Ásmundur hafi dregið að sér fé, vegna endurgreiðslna sem hann fékk frá Alþingi eftir skráningar í akstursdagbók hans. Hann fékk 4,6 milljónir árið 2017 endurgreiddar vegna 47.644 kílómetra aksturs umrætt ár.  

Þórhildur segist hafa útskýrt þau ummæli strax. „Bæði í þættinum sjálfum og í kjölfarið, og sagt að það sé ekki mitt að segja að hann sé sekur eða ekki. Ég tók það sérstaklega fram að það væri dómstóla að úrskurða um það og að ég væri með þessu að meina að það væri rökstuddur grunur til að hefja rannsókn á því hvort um fjársvik væri að ræða.“

Forsætisnefnd komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til þess að vísa máli Ásmundar til siðanefndar Alþingis. Þórhildur ætlar að óska eftir því við forsætisnefnd að álit siðanefndar í hennar máli verði endurskoðað. Hún segir að líta þurfi á ummælin í stærra samhengi og einnig þurfi að taka afstöðu til þess hvort ummælin séu sönn.

Þórhildur telur að málið geti haft kælingarmátt á málfrelsi þingmanna. „Sem að allar mannréttindastofnanir, þar á meðal Mannréttindadómstóll Evrópu eru sameinaðar um að sé töluvert rýmri gagnvart kjörnum fulltrúum og þá sérstaklega gagnvart kjörnum fulltrúum í stjórnarandstöðu til þess að þeir geti veitt valdhöfum aðhald. Sömuleiðis er það almennur skilningur á tjáningarfrelsi þingmanna er að þingmenn þurfa að þola óvægnari umræðu um sig heldur en aðrir.“

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið að mörk tjáningarfrelsis þingmanna séu að þeir tali ekki niður minnihlutahópa, ali ekki á mismunun eða grafi undan lýðræðislegum gildum.
Þórhildur Sunna er fyrsti þingmaðurinn sem hefur verið talinn brotlegur við siðareglur. Hún segir það kaldhæðnislegt. „Það er kaldhæðnislegt og súrrealískt. Að akstursgreiðslur Ásmundar verði ekki sendar til siðanefndar, að Klaustursmálið sé ekki ennþá komið til siðanefndar og í raun annað mál, sem hefur ekki farið hátt í fjölmiðlum en sneri að því þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í fréttatíma að þetta væri alsiða hvernig þeir töluðu á Klausturbar meðal þingmanna og var þar með að væna alla samþingmenn sína um að tala á þann hátt eins og þeir töluðu þarna. Þar kemst forsætisnefnd að þeirri niðurstöðu að þeir vilji ekki aðhafast í málinu vegna þess að ekki sé hægt að leggja mat á sannleiksgildi ummælanna.“

Í því ljósi telji hún niðurstöðu siðanefndar óeðlilega. „Þetta er mjög furðuleg túlkun og hún fær ekki að standa í mínum huga. Mér finnst óeðlilegt að sannleikurinn sé afstæður og það sé verra að benda á mögulega sjálftöku og spillingu heldur en að taka þátt í henni.“ segir Þórhildur Sunna. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV