Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Kafað að sykurskipi í Skerjafirði

07.11.2011 - 11:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Hafið í kringum Ísland geymir marga leyndardóma. Einn þeirra er Sykurskipið svonefnda, flak af finnska flutningaskipinu Wirta sem strandaði á Leiruboða í Skerjafirði í janúar 1941.

 Skipið var á leið frá Bandaríkjunum til Finnlands drekkhlaðið sykri handa finnskum sjúklinum en þurfti að koma við í Reykjavík vegna bilunar. Skipið lenti hins vegar í ógöngum á Skerjafirði vegna dimmviðris og kolareyks sem grúfði yfir borginni.

Allir um borð björguðust en stærstur hluti farmsins lenti í sjónum. Þótt flakið af Sykurskipinu sé í dag afar laskað má sjá ýmislegt heillegt niðri í djúpinu, til dæmis vélarhúsið og skrúfuna. Í kringum þennan brotajárnshaug hefur raunar orðið til dálítið vistkerfi því þarna má sjá gnægð fiska af ýmsu tagi, meðal annars á myndarlegur steinbítur þarna sinn bólstað. Og þar sem skipið er aðeins á sextán metra dýpi, steinsnar frá höfuðborginni, hefur það í mörg ár verið afar vinsæll köfunarstaður.

Sólin skín í heiði á fallegum haustdegi við Hafnarfjarðarhöfn. Þar gerir Einar Magnús Magnússon, kafari og kvikmyndagerðarmaður, bátinn sinn kláran fyrir ferðalag dagsins.