Kæruleysi og æðruleysi hjá kórabóndanum í Kollafirði

Mynd: Viðar Guðmundsson / Viðar Guðmundsson

Kæruleysi og æðruleysi hjá kórabóndanum í Kollafirði

18.01.2020 - 12:14

Höfundar

Viðar Guðmundsson býr í Miðhúsum í Kollafirði með margt fé og nokkra nautgripi en hann er iðulega kallaður kórabóndinn – enda stýrir hann heilum fjórum kórum norðan og sunnan heiða.

„Við erum með 540 kindur, nokkur naut og foreldrar mínir eru með hesta,“ segir Viðar sem ræddi við Kristínu Einarsdóttur í fjárhúsinu í Miðhúsum. „Svo eru það smalahundar, tveir kettir og nokkrar hænur.“ Það er þó tónlistin og kórstarfið sem á hug hans allan. „Ég er með blandaðan kór á Hólmavík, svo er ég með karla-, kvenna- og blandaðan kór í Borgarfirði.“ Kona hans Barbara Guðbjartsdóttir vinnur einnig sem þroskaþjálfi á Hólmavík og Viðar viðurkennir að oft sé mikið um annir hjá hjónakornunum. „En svona með skipulagi og því að vera passlega latur gengur þetta upp. Kæruleysi og æðruleysi er mjög mikilvæg blanda.“

Viðar byrjaði ungur að læra á hljóðfæri og lauk 8. stigi í píanóleik og eftir það fór hann orgelskóla Þjóðkirkjunnar, lagði stund á söngnám í Borgarnesi auk ýmissa námskeiða í kórstjórn og öðru. „Tónlistin svolítið gleypti mig. Maður varð bara heillaður, hlustaði og æfði mikið.“ Viðar segir eitt það besta við kórstarfið vera samkenndina. „Vinskapurinn og tengslin. Svo er það þessi samhæfing að stilla mismunandi raddir saman.“ Hann segir mikilvægt í kórstjórninni að staðna ekki heldur leita stöðugt nýrra leiða. „Maður er alltaf að pæla. Það sem virkar á einn kór virkar ekki á annan. Það er engin ein leið í því.“ Viðari þykir sérstaklega vænt um Aðventutónleika sem hann hefur haldið með öllum kórunum sínum í Reykholtskirkju undanfarin ár. „Það er svona endapunkturinn á kórárinu og þar syngja kórarnir bæði saman og í sitthvoru lagi.“

Tengdar fréttir

Menningarefni

Pólskur kór söng íslenskt jólalag í Hallgrímskirkju

Stjórnmál

Karlakórar í flestum kimum Alþingis

Kvikmyndir

Kórstjóri umbreytist í ofurhetju öræfanna

Austurland

10 ára kórstrákur gaf út disk handa ættingjum