Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kæru vegna slysasleppinga vísað frá

01.03.2017 - 11:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kæru frá Landssambandi veiðifélaga, þar sem farið var fram á rannsókn á því hvort lög um fiskeldi hafi verið brotin í ljósi fjölda regnbogasilungs í ám á Vestfjörðum, hefur verið vísað frá lögreglurannsókn. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum var kærunni vísað frá meðal annars vegna þess að eftirlitsaðilar laganna, Matvælastofnun og Fiskistofa, hafa meintar sleppingar til rannsóknar. 

Landssambandið fór fram á opinbera rannsókn á sleppingunum til að upplýsa hvort að um saknæman atburð væri að ræða eða alvarlega birtingarmynd á slælegu eftirlit. Þá lýsti sambandið yfir þungum áhyggjum af skeytingarleysi stjórnvalda.

Nýlega tilkynnti fiskeldisfyrirtækið Arctic Sea Farm í að gat hefði fundist á fiskeldiskví fyrirtækisins í Dýrafirði sem að fyrirtækið taldi geta verið skýringu á þeim fjölda regnbogasilungs sem veiðst hefur í ám á Vestfjörðum. Matvælastofnun útilokar hins vegar að svo sé vegna mismunar á stærð þess fisks sem veiddist í ánum og þess sem var í kvínni. Rannsókn MAST á mögulegum sleppingum regnbogasilungs síðastliðið sumar er því ekki lokið.