Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kæru Borðsins gegn borginni hafnað

18.04.2017 - 07:07
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu eigenda veitingastaðarins Borðsins við Ægisíðu sem vildu að veitingastaðurinn fengi leyfi til að breyta rekstri staðarins úr flokki I í flokk II. Við það fengi staðurinn meðal annars vínveitingaleyfi og lengri opnunartíma.

Í kærunni kemur fram að sú ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík um að synja staðnum um þetta leyfi hafi valdið algjörum forsendubresti fyrir kaupum á húsnæði veitingastaðarins og rekstri. Og á það bent að gefin hafi verið jákvæð umsögn þegar sótt var um veitingastað í flokki II fyrir rúmum tveimur árum.

Þá gera veitingamennirnir athugasemdir við að skipulagsyfirvöld skuli ekki telja Ægisíðu sem aðalgötu. Þeir benda á að gatan sé stofnæð fyrir fjölda fólks vestur í bæ og á Seltjarnarnesi. Þar sé mikil umferð og tveir strætisvagnar aki um götuna. Þá hafi í húsinu verið starfræktur verslunarrekstur sleitulaust frá árinu 1947 og því hafi alltaf verið talsvert líf í kringum húsið af þeim sökum.

Borgin viðurkennir að það hafi verið óheppilegt að tekið hafi verið jákvætt í umsögnina á sínum tíma því veitingastaðir í flokki II séu ekki leyfðir nema við skilgreindar aðalgötur og nærþjónustukjarna. Þó hafi alltaf verið sá fyrirvari að grenndarkynna þyrfti slíka umsókn. 

Úrskurðarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að veitingastaðurinn hafi ekki getað gengið að því sem vísu að borgin myndi veita leyfi fyrir veitingastað í flokki II á umræddum stað. Við grenndarkynningu hefðu getað komið fram athugasemdir sem hefðu áhrif á niðurstöðu máls.

Nefndin bendir enn fremur á að Ægisíða sé ekki skilgreind sem aðalgata í aðalskipulagi og byggingafulltrúi hafi verið bundinn af því við útgáfu leyfisins.  Var kæru veitingastaðarins því hafnað. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV