Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kærir úrslit forsetakosninga

25.05.2019 - 23:42
epa07588491 A Muslim activist holds a placard reading 'cheating election opponents' during a mass rally following the announcement of election results in Jakarta, Indonesia, 21 May 2019. Incumbent Indonesian President Joko Widodo was re-elected after winning the president election over his rival retired General Prabowo Subianto, the election commission announced on 21 May 2019.  EPA-EFE/ADI WEDA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fyrrverandi hershöfðinginn Prabowo Subianto, sem laut í lægra haldi í forsetakosningunum í Indónesíu í apríl, hefur lagt fram kæru vegna úrslita kosninganna. Starfsmenn kosningabaráttu hans lögðu kæruna fyrir stjórnlagadómstól í Jakarta í gærkvöld, skömmu áður en frestur til þess rann út. Dómstóllinn hefur mánuð til þess að kveða upp dóm.

Joko Widodo náði endurkjöri með rúmlega 55 prósentum atkvæða. Subianto hefur hins vegar lengi haldið því fram að rangt sé haft við í kosningunum, og hefur sjálfur lýst yfir sigri. Hann hefur þó ekki birt neinar haldbærar upplýsingar máli sínu til stuðnings. Subianto tapaði einnig fyrir Widodo í forsetakosningunum 2014. Þá, líkt og nú, kærði hann úrslitin en varð að játa sig sigraðan fyrir dómstólum.

Uppþot urðu í Jakarta þegar úrslit kosninganna voru birt. Stuðningsmenn Subiantos þustu út á götur borgarinnar og mótmæltu úrslitunum. Öryggissveitir lögreglu og hermenn voru kallaðir út. Sjö mótmælendur létu lífið í átökum við lögreglu. Hátt á þriðja hundrað voru handtekin. Ástandið róaðist á miðvikudag, en nærri 60 þúsund lögreglu- og hermenn voru á götum höfuðborgarinnar á fimmtudag. Tugþúsundir eru enn í viðbragðsstöðu, að sögn Guardian.