Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kærir aðra konuna fyrir kynferðisbrot

17.11.2015 - 14:13
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Annar mannanna sem var kærður fyrir kynferðisbrot, sem fjallað var um í fjölmiðlum í byrjun mánaðarins, hefur kært aðra konuna fyrir að hafa brotið gegn sér kynferðislega. Kæran var send til ríkissaksóknara og yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta staðfestir Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, verjandi mannsins, í samtali við fréttastofu.

Meint brot á að hafa átt sér stað um miðjan október eða á sama tíma og konan segir að mennirnir tveir hafi brotið kynferðislega gegn sér.

Þar með eru kærurnar í málinu orðnar fjórar. Tveir menn voru kærðir fyrir kynferðisbrot 21. október en meint brot áttu að hafa átt sér stað í september og október. Báðar kærurnar voru lagðar fram nokkrum dögum eftir seinna brotið. Þá var mánuður liðinn frá því að fyrra brotið á að hafa átt sér stað.

Málið komst í hámæli eftir að Fréttablaðið greindi frá því að lögreglan hefði gert húsleit á heimili annars mannanna og að íbúðin hefði verið útbúin til nauðgana. Vilhjálmur Hans lagði í framhaldinu fram kæru á hendur konunum fyrir rangar sakargiftir.

Mikil umræða fór af stað á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #almannahagsmunir þar sem fólk óskaði eftir svörum frá lögreglu af hverju mennirnir tveir hefðu ekki verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Birtar voru myndir sem sagðar voru af mönnunum og þeir nafngreindir.

Vilhjálmur hefur krafið Fréttablaðið um afsökunarbeiðni og miskabætur upp á samtals 20 milljónir fyrir hönd mannanna. Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365 miðla, sagði í fréttum RÚV þann 9. nóvember að hún sæi ekki ástæðu til að leiðrétta forsíðufrétt blaðsins. 

Eftir að Fréttablaðið birti frétt þar sem rannsóknarskýrsla í málinu kom við sögu boðaði réttargæslumaður kvennanna kæru á hendur Vilhjálmi Hans fyrir að leka upplýsingum til fjölmiðla.