Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kæra niðurfelld ofbeldismál til MDE

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Stígamót ætla að kæra niðurfelld nauðgunar- og ofbeldismál til Mannréttindadómstóls Evrópu. Málsóknin kemur í kjölfar metoo-byltingarinnar. „Umræðurnar hafa átt sér stað og núna er kominn tími til aðgerða,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.

Réttarkerfið á Íslandi þjónar ekki réttlætinu í ofbeldismálum, segir Guðrún. Því hafi Stígamót ákveðið að leita til Mannréttindadómstólsins. 

Í færslu á Facebooksíðu Stígamóta segir að samtökin hafi fundið leið til að fjármagna kærurnar, þolendur eigi ekki að bera kostnað af málarekstrinum. Þar segir að enn sé hægt að bæta fleiri konum í hóp þeirra sem ætli sér að kæra til dómstólsins. „Því fleiri, því sterkari.“ 

Hafa ekki önnur úrræði til að leita réttar síns

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður segir að verið sé að skoða ofbeldis- og nauðgunarbrot gegn konum, þar sem lögregla hefur ákveðið að fella niður mál og leggja ekki fram ákæru og saksóknaraembættið hefur svo staðfest þá niðurstöðu. 

Hún segir að þegar ákveðið hefur verið að fella slík mál niður, hafi þessar konur ekki önnur úrræði til að leita réttar síns. Þær hafi ekki ákæruvald. Hópur kvenna sé í þessari stöðu.

Mögulega brotin mannréttindi við málsmeðferð

Meðal annars er verið að skoða hvort málsmeðferðin hér á landi í þessum málum brjóti gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs, réttinn til raunhæfs úrræðis og réttlátrar málsmeðferðar eða jafnræðis.

„Er konum mismunað í réttarkerfinu með því að taka þennan rétt af þeim að þær hafa ekki ákæruvald og það er ákveðið að höfða ekki sakamál vegna brotsins sem þær þurftu að þola?“ spyr Sigrún.

Sigrún viti ekki til þess að mál af þessu tagi hafi farið fyrir dómstólinn með svona kerfisbundnum hætti áður. Hún segir að það muni skýrast á fyrstu mánuðunum, eftir að þau hafi sent kærurnar, eða kvartanirnar, til Mannréttindadómstólsins, hvort dómstólinn ákveði að taka málin fyrir. Dómurinn vísi mörgum málum frá.

Mótmæla niðurfellingum í nauðgunarmálum

Boðað hefur verið til mótmæla vegna niðurfellinga í nauðgunarmálum á Íslandi á miðvikudaginn klukkan fimm, fyrir utan skrifstofu héraðssaksóknara í Reykjavík. Á Facebook-síðu mótmælanna segir að um 65 prósent nauðgunarmála hafi verið felld niður eftir rannsókn lögreglu hér á landi á árunum 2002 til 2015.

„Okkur þykir óásættanlegt að tveimur af hverjum þremur brotaþolum sé neitað um tækifæri til að láta á mál sitt reyna fyrir dómstól.“ Mótmælt verður með þögulli samstöðu „með þeim hugrökku þolendum sem kærðu nauðgun til lögreglu en fengu aldrei tækifæri til að leita réttar síns fyrir dómi,“ segir á Facebook-síðunni. 

„Það er nógu slæmt að vita til þess að einungis brotabrot nauðgana eru kærðar, en að mikill meirihluti þeirra sem þó eru kærðar séu felldar niður, er ólíðandi. Sú staðreynd að brotaþolum er í flestum tilvikum neitað um að fara með mál sitt fyrir dóm er ekki bara áhyggjuefni okkar sem ætlum að mótmæla, heldur líka mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem hefur gagnrýnt Ísland ítrekað fyrir þessa framkvæmd,“ segir Brynhildur Björnsdóttir, einn skipuleggjenda mótmælanna. 

Tvö ár frá því að metoo-byltingin hófst

Metoo-byltingin hófst fyrir tveimur árum. Konur um allan heim greindu frá kynferðislegu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni. Það leiddi til vitundarvakningar meðal almennings. 

Alþjóðleg metoo-ráðstefna verður haldin hér á landi dagana 17. til 19. september. Hún er liður í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og er skipulögð í samstarfi við Háskóla Íslands.