Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kæra lög um Bakkalínur til ESA

03.10.2016 - 09:52
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Náttúruverndarsamtökin Fjöregg í Mývatnssveit og Landvernd hafa kært fyrirhugaða lagasetningu um Bakkalínur til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA. Í tilkynningu frá Landvernd segir að slík lög væru brot á rétti umhverfisverndarsamtaka til að bera ákvarðanir stjórnvalda undir dómstól eða annan óháðan úrskurðaraðila.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skoðar nú framkvæmdaleyfi fyrir Bakkalínum, og þar með talið umhverfismat frá 2010. Er búist við úrskurði nefndarinnar í næstu viku. Með frumvarpi iðnaðarráðherra verða fyrri framkvæmdaleyfi felld úr gildi og lagning háspennulínu frá Kröflu að Bakka leyfð þrátt fyrir synjun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Ólafur Þröstur Stefánsson, formaður Fjöreggs segir í tilkynningunni að samtökin hafi fengið það staðfest að ESA skoði málið ef og þá um leið og lögin yrðu samþykkt á Alþingi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar segir að samtökin kanni hvort hægt sé að leita til eftirlitsnefndar Árósasamningsins og Mannréttindadómstóls Evrópu verði frumvarpið að lögum. Frumvarpið gekk til atvinnuveganefndar fyrir rúmri viku.