Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kabarett og ljóðlist í eina sæng

Mynd með færslu
 Mynd: Steinn Þorkellsson - Youtube

Kabarett og ljóðlist í eina sæng

12.03.2018 - 13:35

Höfundar

Listviðburðahópurinn Huldufugl stendur að ljóðakvöldinu Rauða skáldahúsinu sem nú er haldið í fjórða skipti. Viðburðurinn er haldinn í Iðnó á skírdag og samanstendur af ljóðalestri í bland við sviðslistir, gjörninga, dans og tónlist.

Viðburðurinn er að erlendri fyrirmynd en svokallað „Poetry Brothel“, sem þýða mætti sem ljóðavændishús, varð fyrst til í núverandi mynd hjá félagi ljóðskálda í New York árið 2008. Síðan hefur hugmyndin farið á flug um allan heim og í dag eru reglulega haldnir viðburðir af þessu tagi í fjölda borga þremur heimsálfum. Hér er þó ekki í neinum skilningi um vændisstarfsemi að ræða heldur er hugmyndin um vændishús notuð sem eins konar uppskrift að leikhúsformi. Í ljóðavændishúsinu í New York tala skáldin um sig sem hórur og bjóða meðal annars upp á einkalestra í afviknum rýmum. Lagt er upp úr að blanda saman ljóðlist og kabarett, gjörningalist og tónlist, og svo að vísað sé í orð Alexöndru Villarreal hjá Observer, „sértækur vettvangur fyrir skapandi hugsun“ [e.„a think tank for art“].

Að Rauða skáldahúsinu stendur um þrjátíu manna hópur. Á hverju ljóðakvöldi er eitt vel þekkt gestaskáld hyllt sérstaklega og á skírdag mun Sjón gegna því hlutverki. Á fyrri kvöldum hafa Kristín Ómarsdóttir, Kristín Eiríksdóttir og Kött Grá Pjé gegnt þeirri stöðu. Önnur skáld sem einnig taka þátt að þessu sinni eru óþekkt nöfn í bland við þekktari; Elías Knörr, Lommi, Ragnheiður Erla, Þorvaldur S. Helgason, Ingunn Lára, Camila Hidalgo, Hlín Leifsdóttir, Kailyn Phoenix, Arthur Seefahrt og Ingimar Bjarni. Sérlegt þema kvöldsins verður dauðasyndirnar sjö.

Hér gefur að líta myndband Steins Þorkelssonar frá Rauða skáldahúsinu sem sett var upp 29. júlí 2017. Kristín Eiríksdóttir var heiðursljóðskáld kvöldsins.

Skáldin munu bjóða upp á einkalestra á skírdag en í fréttatilkynningu segir að þannig skapist ákveðin náin stemning sem að fæst ekki á „venjulegum“ ljóðakvöldum. Að auki verður boðið upp á lifandi tónlist en tvær hljómsveitir munu skemmta um kvöldið. Þá verður spáð í tarot-spil auk þess sem boðið verður upp á mat og drykk.
Facebook-síða viðburðarins er hér, en einnig má tryggja sér miða á miði.is.