Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Júlíus Vífill stofnaði aflandsfélag 2014

03.04.2016 - 12:03
Mynd: RÚV / Kastljós
Einn reyndasti borgarfultrúi Reykvíkinga fól lektor í skattarétti við Háskóla Íslands að stofna fyrir sig hlutafélag í Panama árið 2014. Rík áhersla var lögð á að leyna eignarhaldi hans. Hann vill ekki svara því hvort hann hafi gefið félagið upp til skatts og hvernig. Lektorinn óskaði eftir að gerast umboðsmaður fyrir aflandsþjónustu á árinu 2013.

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. Í þættinum var fjallað um tengsl íslenskra stjórnmálamanna við fyrirtæki í þekktum skattaskjólum. Þátturinn var unninn í samstarfi við Reykjavík MediaAlþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung.

Umfjöllunin byggði á svokölluðum Panama-skjölum, gögnum sem lekið var til þýska blaðsins og geyma viðskiptaupplýsingar aflandsþjónustu fyrirtækis í Panama.
 
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur setið í borgarstjórn Reykjavíkur í samtals 14 ár. Gögn úr grunni Mossack Fonseca sýna að í ársbyrjun 2014 stofnaði Júlíus Vífill félagið Silwood Foundation á Panama, og greiddi fyrir um 200 þúsund krónur. Rík áhersla var lögð á að nafn Júlíusar Vífils yrði ekki í forgrunni félagsins, hlutabréf þess stíluð á handhafa en ekki nafn hans. 

Opnaði reikning í Sviss
 
Júlíus er eini kjörni fulltrúinn, sem gögn Mossack Fonseca ná til, sem hefur stofnað aflandsfélag eftir hrun. Mánuði eftir stofnun Silwood óskaði lögmaður Júlíusar eftir því við svissneska bankann Julius Baer að stofnaður yrði bankareikningur í nafni Panama-félagsins. Júlíus Vífill skrifaði undir stofnskjölin sem handhafi hlutafjár og raunverulegur eigandi.
 
Julius fann ekki Júlíus
 
Eignarhaldi Júlíusar Vífilsa var svo vel leynt, að starfsmenn Julius Baer kváðust ekki geta opnað bankareikning hins panamíska Silwood í nafni Júlíusar þar sem engin tenging fyndist milli Júlíusar og félagsins. Því þurfti að fá vottorð skuggastjórnendanna í Panama svo reikningurinn fengist opnaður.
 
Ekki í hagsmunaskráningu
 
Silwood Foundation er hvergi að finna í skráningu Júlíusar Vífils á fjárhagslegum hagsmunum hans á vef borgarinnar. Og þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir hefur Júlíus Vífill neitað að svara því hvort félag hans á Panama og eignir þess séu gefnar upp til skatts hér á landi. Júlíus Vífill svaraði ekki ítrekuðum símtölum og skilaboðum en sendi tölvupóst og spurðist fyrir um erindið. Þegar honum var kynnt erindið:  „Silwood Foundation“ svaraði hann hvorki tölvupóstum, símtölum né skilaboðum.
 
Neitaði að svara
 
Viku síðar, síðastliðinn miðvikudag, náðist í Júlíus, sem þá var á leið til fundar í umhverfis- og skipulagsnefnd borgarinnar. Þar neitaði hann að tjá sig um málið.
 
„Heyrðu ég skal tala við þig síðar en ekki núna.“
- En af hverju hefurðu ekki svarað þessum spurningum?
„Ég mun svara síðar,” sagði Júlíus Vífill sem í símtali síðar sama dag kvaðst vera að undirbúa skriflegt svar. Í því símtali vildi hann ekki svara því hvort panamíska félagið hefði verið gefið upp til skatts.
 
Yfirlýsingin
 
Í yfirlýsingu sem Júlíus Vífill sendi svo frá sér síðdegis á föstudag sagði hann að tilgangurinn með stofnun aflandsfélagsins hafi verið að stofna eftirlaunasjóð í Sviss. Sjálfur situr Júlíus Vífill í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar.

„Allt sem við kemur þessum sjóði er í samræmi við íslensk lög og reglur, enda naut ég sérfræðiráðgjafar til að tryggja að réttilega og löglega væri að málum staðið. Mér var ráðlagt að skrá stofnun sjóðsins í Panama. Ég hef hvorki fengið neitt greitt úr sjóðnum né haft af honum annars konar tekjur og hef ekki heimild til að ráðstafa fjármunum úr honum.”
 
Vill ekki segja hvenær
 
Í yfirlýsingunni segir ennfremur að „fyrirkomulag sjóðsins og aðrar upplýsingar liggi fyrir hjá skattayfirvöldum“. Þegar samband náðist við Júlíus Vífil eftir að hann sendi frá sér yfirlýsinguna var hann inntur eftir því hvenær skattayfirvöldum hefði verið tilkynnt um fyrirkomulag fyrirtækisins og hvort hann hefði á skattframtölum sínum, greint frá tilvist félagsins í Panama og reikningnum svissnesku. Hann neitaði að svara þeirri spurningu.
 
„Ég mun ekki tjá mig frekar en ég hef nú gert,” sagði Júlíus Vífill og sleit símtalinu. 

Á laugardag barst svo eftirfarandi tölvupóstur frá Júlíusi Vífli:

„Ég vil upplýsa að greint er frá sjóðnum í skattframtali. Að öðru leyti vísa ég í yfirlýsingu.“

Júlíus kvaðst ekki vilja svara því hvenær og hvernig hefði verið gerð grein fyrir Panama-félaginu hans eða svissneska bankareikningnum né hvort upplýst hefði verið um þá á skattframtölum áranna 2014 og 2015 og með hvaða hætti.

Biðst velvirðingar

Í yfirlýsingu Júlíusar Vífils frá því á föstudag segir hann um ástæður þess að hann gat ekki um tilvist panamíska félagsins í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa:

„Enda þótt þess sé ekki krafist að geta eftirlaunasjóðs í hagsmunagreiningu borgarfulltrúa tel ég, eftir á að hyggja, að betur hefði farið á því og biðst velvirðingar á að hafa ekki gert það.“

Samkvæmt reglum um skráningu borgarfulltrúa á fjárhagslegum hagsmunum er skráningarskylda Júlíusar á panamíska félaginu skýr. Þar segir að skrá eigi hluti sem nemi 25% eða meira af hlutafé eða stofnfé félags, sparisjóðs eða sjálfseignastofnunar. Júlíus Vífill á 100% hlut í panamíska félaginu Silwood foundation.
 
Lektorinn og aflandsþjónustan
 
Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor í skattarétti við Háskóla Íslands, benti á það í fréttum stuttu eftir að upplýst var um Tortóla-félag forsætisráðherrahjónanna að lítið væri að græða á því í dag að eiga aflandsfélag í skattaskjóli – það hefði breyst eftir hrun.
 
„Þannig að þetta er óhagkvæmara í dag, að vera með þetta félag, heldur en að vera sjálfur að gera fjárfestingu eða vera með það í gegnum íslenskt eignarhaldsfélag,“ sagði Kristján Gunnar Valdimarsson í tíu-fréttum RÚV 16. mars og endurtók sömu skilaboð í fréttum Stöðvar 2 á föstudagskvöld.
 
„Hlýtur að vera siðferðilega rétt“
 
Í Kastljósþættinum sem sýndur var í kvöld var rætt við Kristján. Spurður um siðferðisspursmál í tengslum við stofnun og rekstur aflandsfélaga, sagði hann:

„Ég hef nú bara skoðað þetta út frá lagalegu sjónarmiði. Þetta eru lögin og það er nú yfirleitt þannig að lögin endurspegla siðferðið. Ég meina við erum að fara eftir lögum í landinu. Og ef það er farið eftir lögum, þá hlýtur það að vera siðferðilega rétt.“

Úr eftirliti í ráðgjöf

Milliliður Júlíusar Vífils í uppsetningu félags hans á Panama og stofnun bankareikninganna svissnesku árið 2014, er íslenska lögmannsstofan Promptus. Eigandi hennar er Kristján Gunnar Valdimarsson. Kristján á að baki langan feril í skattaráðgjöf við íslenska banka en gegndi áður stöðu skattstjóra og stýrði eftirlitsdeild Ríkisskattstjóra.
 
Notaði nafn Háskólans
 
Í október 2013 óskaði Kristján Gunnar eftir því við Mossack Fonseca, að fá nokkurs konar umboð fyrir aflandsþjónustu þess hér á landi. Í skeyti sem hann sendi til Panama kynnti hann sig sem lögfræðing og lektor við Háskóla Íslands, og minnti á að hann hefði í störfum sínum fyrir Landsbankann átt í viðskiptum við fyrirtækið. Kristján kvaðst hafa umbjóðendur sem vildu stofna félag í Panama en óskaði jafnframt eftir að geta stofnað félög á fleiri aflandssvæðum.

Kristján neitar því nú að þessi þjónusta sé ástæða þess að hann hafi leitað til Mossack Fonseca og óskað eftir viðskiptasambandi við fyrirtækið.

„Mossack Fonseca er nú ekkert bara með aflandsfélög.“

„Man ekki eftir þessu“

Þegar Kristján var spurður um ástæður þess að hann aðstoðaði Júlíus Vífil við uppsetningu Panama-félagsins Silwood, og hvers vegna svo mikil áhersla hefði verið lögð á að dylja raunverulegt eignarhald Júlíusar á félaginu, sagði Kristján:
 
„Ég bara kannast ekki við það. Ég þarf að skoða það bara.“

- En þetta gerist 2014. Það er einhver tilgangur með því að það sé tekið fram að nafnið komi hvergi fram í gögnum félagins, það er verið að fela eitthvað er það ekki?

„Nei ég man nú bara ekki eftir þessu ég verð að segja það.“

- Þú kannast ekki við þetta?

„Nei, nei,“ sagði Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor í skattarétti við Háskóla Íslands og umboðsmaður Mossack Fonseca á Íslandi.