
Júlíus Vífill segir af sér
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði afsögn Júlíusar Vífils hafa komið sér á óvart og þakkaði Júliusi Vífli fyrir gott samstarf og sagði hann stíga merkilegt skref sem geti skipt máli í pólítískri menningu sem fordæmi.
Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, þakkaði Júlíusi Vífli samstarfið og sagði það stórmannlegt af honum að segja af sér til að hreinsa andrúmsloftið. Hann teldi að hann hefði ekki þurft að gera það. Dagur og Halldór voru sammála um að skerpa þurfi á hagsmunaskráningu borgarfulltrúa.
Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, þakkaði Júlíusi Vífli samstarfið.
Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við fréttastofu að tíðindin hefðu komið sér á óvart. Júlíus Vífill hafi í störfum sínum nálgast öll mál af yfirvegun. „Ég geri ráð fyrir að hann hafi tekið þessa ákvörðun af yfirvegun og af ástæðum sem hann telur réttar, sem ég held að allir geti borið virðingu fyrir.“
Fram kom í Panama-skjölunum að Júlíus Vífill og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, hafa tengsl við aflandsfélög.
Sveinbjörg Birna hefur óskað eftir því að regluvörður borgarinnar fari yfir hennar mál.