Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Júlíus Vífill segir af sér

05.04.2016 - 14:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði af sér í upphafi borgarstjórnarfundar sem er í gangi núna. Hann hefur verið borgarfulltrúi flokksins í 14 ár. Honum var þakkað samstarfið af borgarfulltrúum allra flokka.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði afsögn Júlíusar Vífils hafa komið sér á óvart og þakkaði Júliusi Vífli fyrir gott samstarf og sagði hann stíga merkilegt skref sem geti skipt máli í pólítískri menningu sem fordæmi. 

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, þakkaði Júlíusi Vífli samstarfið og sagði það stórmannlegt af honum að segja af sér til að hreinsa andrúmsloftið. Hann teldi að hann hefði ekki þurft að gera það. Dagur og Halldór voru sammála um að skerpa þurfi á hagsmunaskráningu borgarfulltrúa. 

Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, þakkaði Júlíusi Vífli samstarfið. 

Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við fréttastofu að tíðindin hefðu komið sér á óvart. Júlíus Vífill hafi í störfum sínum nálgast öll mál af yfirvegun. „Ég geri ráð fyrir að hann hafi tekið þessa ákvörðun af yfirvegun og af ástæðum sem hann telur réttar, sem ég held að allir geti borið virðingu fyrir.“

Fram kom í Panama-skjölunum að Júlíus Vífill og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, hafa tengsl við aflandsfélög. 

Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar ákvað á fundi sínum í morgun að fara fram á það við innri endurskoðun og regluvörð borgarinnar að kannað verði hvort borgarfulltrúarnir Júlíus Vífill og Sveinbjörg Birna hafi farið á svig við gildandi lög og reglur um skyldur og hæfi borgarfulltrúa, hvort reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar hafi verið fylgt og hvort siðareglur borgarfulltrúa hafi verið brotnar. Einnig fór forsætisnefnd fram á það að siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga taki málið til skoðunar. 

Sveinbjörg Birna hefur óskað eftir því að regluvörður borgarinnar fari yfir hennar mál. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV