„Jörðin þarfnast ekki björgunar“

Mynd með færslu
 Mynd: Amnesty

„Jörðin þarfnast ekki björgunar“

16.09.2019 - 13:01
Í dag hlýtur Greta Thunberg og hreyfing skólabarna, Fridays for Future, æðstu viðurkenningu Amnesty International titilinn Samviskusendiherra samtakanna 2019 fyrir baráttu sína gegn loftslagsbreytingum. Af þessu tilefni mun Íslandsdeild Amnesty International veita fjórum samtökum hérlendis viðurkenningu.

Íslandsdeild Amnesty International veitir viðurkenningu fyrir forystu hérlendis í baráttunni gegn loftlagsbreytingum í Bíó Paradís í dag klukkan 17:00. Fjögur samtök hljóta viðurkenningu fyrir forystu sína í baráttunni gegn loftlagsbreytingum. Þau eru: Landssamtök íslenskra stúdenta, Stúdentaráð Háskóla Íslands, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Ungir umhverfissinnar.
 

„Aðgerðir þessa unga fólks eru gríðarlega mikilvægar til þess að vekja athygli almennings og stjórnmálafólks á afleiðingum loftslagsbreytinga og áhrifum þeirra á mannréttindi,“ segir Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.

Mynd með færslu
 Mynd: Amnesty
Anna Lúðvíkdsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Kumi Naidoo og Björg María Oddsdóttir.

Fridays for Future hófst með Gretu Thunberg, unglingsstúlku frá Svíþjóð sem ákvað í ágúst 2018 að hætta að mæta í skólann á föstudögum og þess í stað mótmæla fyrir utan sænska þinghúsið þar til  þingið gripi til aðgerða gegn loftslagsbreytingum af fullri alvöru. Frá því í febrúar á þessu ári hafa íslenskir nemendur á öllum skólastigum safnast saman á Austurvelli í hádeginu á föstudögum og krafist þess að íslensk stjórnvöld bregðist við neyðarástandi í loftslagsmálum.

„Þessi verðlaun eru ekki mín heldur okkar allra. Það er magnað að verða vitni að þeirri viðurkenningu sem við höfum fengið og finna að við erum að hafa áhrif á það sem við erum að berjast fyrir,“ sagði Greta Thunberg.
 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Amnesty
Frá loftslagsverkföllunum á Austurvelli í mars

Heiðursverðlaunin, Samviskusendiherra Amnesty International, voru fyrst veitt árið 2002 til að heiðra einstaklinga og hópa sem hafa stuðlað að mannréttindum með því að fylgja samvisku sinni. Á meðal fyrri heiðurshafa eru Nelson Mandela, Malala Yousafzai, Alicia Keys og Colin Kaepernick.

Mynd með færslu
 Mynd: Amnesty
Kumi ræðir um mannréttindi og loftslagsmál á skrifstofu Íslandsdeildarinnar

„Góðu fréttirnar varðandi hlýnun jarðar er að jörðin þarfnast ekki björgunar. Jörðin hefur það ágætt. Hvers vegna segi ég það? Jú, því ef við höldum áfram á þeirri braut sem við erum á þá er lokaútkoman sú að mannkynið deyr út. Jörðin mun hins vegar ná sér aftur á strik. Skógar munu vaxa aftur og vatnslindir endurnýjast. Vandinn sem tengist hlýnun jarðar snýr fyrst og fremst um að tryggja framtíð barna og barnabarna okkar,“ sagði Kumi Naidoo, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.

Íslandsdeild Amnesty International mun veita viðurkenningu fyrir forystu hérlendis í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í Bíó Paradís í dag, mánudaginn 16. september, klukkan 17:00.