Jón Þór - Fölir vangar

Mynd: Jón Þór / Fölir vangar

Jón Þór - Fölir vangar

23.03.2020 - 15:10

Höfundar

Plata vikunnar á Rás 2 að þessu sinni er Fölir vangar, þriðja sólóplata Jóns Þórs Ólafssonar. Jón Þór var í hljómsveitunum Lada Sport og Isidor áður en hann hóf sólóferil undir sínu eigin nafni.

Fölir vangar er önnur breiðskífa Jóns Þórs og þriðja platan sem hann sendir frá sér undir eigin nafni. Árið 2012 kom breiðskífan Sérðu mig í lit? og þrönskífan Frúin í Hamborg kom út fyrir fjórum árum. Fölir vangar er meira hugsuð sem poppplata en fyrri verk, og er að hans sögn blanda af indírokki og tregafullu indípoppi með örlitlum pönk-rokk áhrifum.

Jón Þór samdi öll lög og alla texta á plötunni. Axel Árnason sá um hljóðvinnslu, en platan var tekin upp í Berlín í þremur upptökuhollum, frá hausti 2018 til síðla árs 2019. Jón Þór og Axel unnu plötuna saman og spiluðu á flest hljóðfærin. Þeir hafa þekkst lengi og brallað ýmislegt í gegnum tíðina. Saman gerðu þeir rafpoppplötuna Army of Lovers undir nafninu Love and Fog fyrir tveimur árum.

Nokkrir vinir Jóns Þórs koma einnig við sögu á plötunni en Steingrímur Þórarinsson, spilar á bassa, Hekla Magnúsdóttir syngur bakraddir og spilar á þeremín, Ásdís María Viðarsdóttir syngur bakraddir og Friðrik Sigurbjörn Friðriksson, gamall félagi Jóns Þórs úr Lada Sport, spilar á bassa í lokalagi plötunnar.

Platan var einnig unnin í 300 manna bænum Demerath og í Köln. Jón Þór varði síðasta árinu í Köln í fæðingarorlofi og las mikið af gömlum íslenskum eitís ljóðum sem höfðu áhrif á sköpunarferlið. Hverfið Mülheim sem fjölskyldan bjó í, í Köln, þýðist frjálslega sem ruslheimur og það er óhætt að segja að sé frekar frjálslegt og minni á gamla tíma. Þar má sjá forvitnilegt fólk úr ýmsum áttum, strompreykjandi og varla þverfótað fyrir fíklum og hávaðaseggjum.

Platan Fölir vangar er plata vikunnar á Rás 2 og þú getur hlustað á hana ásamt kynningum Jóns Þórs í spilara hér að ofan. Ef það er ekki nóg þá kemur hún út á vínyl í lok apríl og einnig verður hægt að panta hana á netinu fyrir þá sem það kjósa.

Jón Þór - Fölir vangar