Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Jón telur rétt að auka hvalveiðar

24.07.2015 - 11:43
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Mynd með færslu
Tvær langreyðar mara í hálfu kafi við hvalstöðina í Hvalfirði Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuvegarnefndar, telur rétt að auka hvalveiðar við Ísland. Hann segir að hrakspár um áhrif veiðanna á ferðaþjónustu og útflutningsgreinar hafi ekki gengið eftir.

Fram kom í viðtali við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra, í Skessuhorni á dögunum, að hann og fulltrúar utanríkisráðuneytisins verði varir við það á fundum sem þeir sækja erlendis að Ísland sé stundum litið hornauga vegna hvalveiðanna. Það sé umhugsunarefni hvort ekki eigi að koma til móts við Alþjóðahvalveiðiráðið til að mynda með því að veiða færri hvali árlega en nú sé gert.

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, er ósammála mati ráðherrans. „Ég hef ekki orðið var við það hvaða hagsmunir það eru sem hafa orðið undir. Ég minni á þann hræðsluáróður sem hófst þegar atvinnuveiðar voru leyfðar. Hér átti allt að fara mjög illa í ferðaþjónustu og í okkar útflutningsgreinum en hið gagnstæða hefur nú gerst. Þannig að ég er algjörlega ósammála Gunnari Braga í þessari nálgun hans á málinu.“

Hafrannsóknastofnun ráðleggur veiðar á 154 langreyðum og 229 hrefnum á yfirstandandi vertíð. Matið er byggt á talningu sem fór fram árið 2007 en nú stendur yfir sambærileg talning. Jón telur að miðað við núverandi aðstæður sé rétt að auka veiðar. „Ég tel að það sé jafnvel rétt að við aukum hvalveiðar við Ísland. Það er að mínu mati og margra annarra mikið áhyggjuefni, vöxturinn í stofni hnúfubaks sem að telur orðið í áttina að 20.000 dýrum og hefur vaxið stórlega á síðustu árum.“

Bandaríkin og Evrópusambandið hafa gagnrýnt veiðar Íslendinga harðlega og bandarísk stjórnvöld buðu Íslandi til dæmis ekki á stóra hafráðstefnu í fyrrasumar vegna þeirra. Jón segir að óþarft sé að óttast viðbrögð verði veiðar auknar.  

„Þau verða eflaust svipuð og þau hafa verið hingað til en þau hafa ekki haft áhrif sem að ég fæ hendi fest á.“