Jón Gunnarsson dettur úr ríkisstjórn

30.11.2017 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrír af sex ráðherrum Sjálfstæðisflokksins frá síðasta kjörtímabili gegna áfram sömu embættum í nýrri ríkisstjórn. Kristján Þór Júlíusson færist úr menntamálaráðuneytinu í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið en Jón Gunnarsson, sem var samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra missir sæti sitt í ríkisstjórn.

Þetta staðfesti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að loknum þingflokksfundi í hádeginu. Hann flyst úr forsætisráðuneytinu í fjármálaráðuneytið. Guðlaugur Þór Þórðarson verður áfram utanríkisráðherra og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir gegnir áfram embætti ferða- og iðnaðarráðherra. 

Jón Gunnarsson var ósáttur við niðurstöðuna. Hann gekk út úr Valhöll á undan öðrum fundarmönnum. Bjarni Benediktsson sagði að Jón hefði lýst vonbrigðum með ráðherravalið en stutt það. „Það er auðvitað staða sem maður vill ekki finna sig í að leysa úr,“ sagði Bjarni um hvernig hefði verið að velja ráðherra nú þegar stólum Sjálfstæðisflokksins fækkar úr sex í fimm.

Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, studdi ekki ráðherralistann. Hann segir í færslu á Facebook að í annað skiptið á innan við ári hafi Bjarni gengið framhjá Suðurkjördæmi þegar kom að ráðherraskipan í ríkisstjórn. Páll segist hafa mótmælt þessu harðlega í samtali við Bjarna í morgun og tilkynnt honum að hann gæti ekki stutt ráðherralistann af þeim sökum. Páll tekur þó fram að hann hafi greitt atkvæði með stjórnarsáttmálanum og styðji ríkisstjórnina.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru eftirtaldir

 • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
 • Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra
 • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra
 • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra
 • Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra
 • Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra
 • Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
 • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra
 • Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra
 • Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra
 • Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Viðtal við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokks, að loknum fundi í Valhöll
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi