Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jón Baldvin stefnir Aldísi og Sigmari

28.06.2019 - 13:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, hefur stefnt Aldísi Schram dóttur sinni og Sigmari Guðmundssyni dagskrárgerðarmanni fyrir meiðyrði. Sigmar er krafinn um tvær og hálfa milljón króna í miskabætur.

Í stefnunni, sem var gefin út á mánudag og fréttastofa hefur undir höndum, segir að Jón höfði dómsmálið til varnar æru sinni.

Vill að ummælin verði dæmd ómerk

Málið varðar ummæli sem Aldís og Sigmar létu falla í Morgunútvarpi Rásar tvö í janúar, en Sigmar og Helgi Seljan tóku viðtal við Aldísi. Í stefnu er þess krafist að ummælin verði dæmd dauð og ómerk. Helga er ekki stefnt vegna málsins.

Segir að Jón Baldvin hafi misnotað stöðu sína sem sendiherra

Í þættinum sagði Aldís að Jón Baldvin hefði misnotað stöðu sína sem sendiherra í Bandaríkjunum, til þess að reka persónuleg erindi.

Hann hefði nýtt bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington þegar hann óskaði eftir því að hún yrði nauðungarvistuð á geðdeild. Í öðrum tilvikum hefði hann undirritað bréfin sem sendiherra. Hún sagði að læknir og lögregla hefðu brotið sér leið inn á heimili hennar, að því er virðist að nauðsynjalausu. Aðgerðin hefði verið kölluð aðstoð við erlent sendiráð í lögreglugögnum.

Aldís sagði að hún hefði verið nauðungarvistuð fimm sinnum á geðdeild. Símtöl frá Jóni Baldvini hefðu nægt til þess að hún væri umsvifalaust færð í járnum á geðdeild.

Ummælin séu „tilhæfulaus og smekklaus“

Í stefnu segir að með ummælunum hafi Aldís sakað Jón Baldvin „um margs konar hegningarlagabrot s.s. sifjaspell, kynferðisbrot gegn börnum, barnaníð, ólögmæta nauðungarvistun á geðdeild, frelsissviptingu og ýmsa aðra refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsemi.“

Ummælin séu „ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda.“

Fer fram á 2.500.000 í miskabætur

Jón Baldvin fer fram á að Sigmar greiði honum tvær og hálfa milljón króna í miskabætur. Auk þess krefst hann þess að gerð verði grein fyrir forsendum og niðurstöðu dóms í málinu í Morgunútvarpi Rásar 2.

Ríkisútvarpinu var stefnt til réttargæslu en það mun bera ábyrgð á greiðslu fjársekta, skaðabóta, og fleira sem Sigmari kann að vera gert að greiða í málinu, segir í stefnunni. 

Hegðun Jón Baldvins verið til umfjöllunar

Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað um frásagnir kvenna af ósæmilegri hegðun Jóns Baldvins og áreitni. Elstu sögurnar eru um fimmtíu ára gamlar en þær nýjustu frá því í fyrra. Fjöldi kvenna hefur gengið í metoo-hóp á Facebook þar sem fjallað er um Jón Baldvin. Í hópnum eru þolendur, aðstandendur þeirra og stuðningsfólk.

Stundin greindi fyrst frá stefnunni.