Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jón ávarpaði dóminn í meiðyrðamáli Benedikts

04.11.2019 - 15:34
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, nýtti sér heimild í lögum til þess að ávarpa Landsrétt þegar meiðyrðamál Benedikts Bogasonar, hæstaréttardómara, gegn honum var flutt á föstudag. Jón Steinar sagði meiðyrðamálið hafa valdið sér „heilmiklum fjárútlátum.“

Jón Steinar var sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness síðasta sumar. Málið má rekja til ummæla sem birtust í bók hans Með lognið í fangið.  

Benedikt taldi að Jón Steinar hefði ásakað sig og meirihluta dómara í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, um dómsmorð. Varla væri hægt að saka dómara við æðsta dómstól þjóðarinnar um alvarlegra brot í starfi. Baldur hlaut tveggja ára fangelsisdóm í Hæstarétti árið 2012 fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. 

Jón Steinar segir í samtali við fréttastofu að hann hafi nýtt sér þetta ákvæði laga til að segja nokkur orð við dómara Landsréttar.  Ræðan hefði ekki tekið langan tíma, kannski fimm mínútúr. Hann hafi til að mynda viljað benda á að héraðdsdómur hefði fellt niður allan málskostnað „og þar með var þessi sérfræðingur í meiðyrðarétti búinn að valda mér verulegu fjártjóni.“ Hann hafi því gert þá kröfu að Benedikt borgaði málskostnað ef dómur héraðsdóms yrði staðfestur. L

Svo hefði hann einnig nefnt að dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness hefði aldrei verið kvaddur inn í Hæstarétt sem varadómari fyrr en í maí 2018. „Það er algjörlega óviðeigandi að kalla manninn inn sem varadómara á sama tíma og hann er að hlusta á málflutning í máli hæstaréttardómara gegn einhverjum manni út í bæ,“ segir Jón Steinar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV