Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Jólatréð fjarlægt af Austurvelli

07.12.2015 - 15:19
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
„Það var tekið niður svo það fjúki ekki út um allan Austurvöll,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar um Óslóartréð sem tekið var niður síðdegis. Starfsmenn borgarinnar hafa unnið við það síðdegis að taka niður Óslóartréð og jólabjöllur sem hafa prýtt götur í miðbæ Reykjavíkur. Þetta er hluti af undirbúningi borgarinnar fyrir veðrið sem gengur yfir borgina síðdegis, í kvöld og í nótt.

Í fyrra brotnaði jólatréð á Austurvelli áður en tókst að kveikja á ljósum þess. Það varð til þess að tendrun jólaljósanna tafðist um viku. Þá var búið að sækja nýtt jólatré á Hólmsheiði. 

Bjarni segir að borgaryfirvöld vilji að fólk verði komið snemma heim í dag, bæði borgarstarfsmenn og aðrir. Þess vegna hafi verið farið í það í morgun að fjarlægja jólatréð og annað það sem getur fokið. Því verður komið í skjól og sett upp aftur þegar veður leyfir.

Áttu mynd eða myndskeið af óveðrinu? Sendu hana á [email protected] með upplýsingum um hvar og hvenær myndin er tekin. RÚV áskilur sér rétt til að birta án greiðslu þær myndir sem berast, á RÚV.is og/eða í sjónvarpi. Nafn ljósmyndara er birt nema annars sé óskað. Munið tilmæli almannavarna og farið ykkur ekki að voða.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV