Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jólaplata sem bragð er að

Mynd með færslu
 Mynd: Marína Rós og Stína Ágústs

Jólaplata sem bragð er að

18.12.2019 - 17:19

Höfundar

Hjörtun okkar jóla er ný jólaplata eftir söngkonurnar Marínu Ósk og Stínu Ágústs. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Ég er farinn að hallast að því að það séu bara tveir kostir í stöðunni þegar kemur að jólaplötum. Annað hvort eru þær góðar eða ekki, annað hvort nærðu landi stemningslega eða þér er skolað út á hafsauga aftur. Því að hver nennir að hlusta á sæmilega jólaplötu? Þegar ég hugsa um það, eru stemningsvæntingar okkar fyrir þessari tíð það miklar, að plöturnar verða bara að ná upp í þessa nánast óraunhæfu staðla sem við erum búin að setja. Ef þær eru hálfdrættingar, eru þær engir drættingar.

Glaður

Sem leiðir að því að hér sting ég glaður niður penna um plötu, sem er nýtt tillegg í þessa flóru. Þá flóru, sem tengir fast og vel við jólaandann og allar þær hugmyndir sem við höfum um hann. Hjörtun okkar jóla, eftir þær Marínu Ósk og Stínu Ágústs er þannig, að maður eiginlega finnur fyrir dökkbrúnum, skandinavískum við þegar maður hlustar. Lykt af bökuðum eplum og greni flæðir úr hátölurunum. Jólalög frá Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Danmörku og Íslandi, þessu er fléttað saman við djassútsetningar gítarleikarans Mikaels Mána Ásmundssonar og útkoman glæsilegt jafnvægi djassstemma og þjóðlagakeims. Með honum eru þeir Þorgrímur Jónsson (kontrabassi) og Matthías MD Hemstock (trommur) og undirleikur allur hinn glæstasti. Svalur, pínu úti á kanti og í fullkominni fylgd við raddir þeirra Marínu og Stínu en þær semja svo íslenska texta við lögin. Platan var tekin upp í ágúst en Þórður Magnússon stýrði þeim.

Einstakt

Lykillinn að plötunni er stemningin, fyrst og síðast, fremur en einstök lög. Merkilegt hvað þessi lifandi andi næst vel fram, en platan var tekin upp sem á tónleikum væri, allir í sama herbergi og bara talið í. Það er eins og þetta ágæta fólk standi inni í stofu hjá manni. Hljóðfæraleikararnir leyfa sér að fara á hressilegt hlemmiskeið á völdum köflum og allir þessir útúrdúrar virka, eru passandi. T.d. í „Leppalúðasaga“, þar sem Mikael tekur allsvakalegt gítarsóló undir restina, áður en þær stöllur detta inn í samsöng sem er í senn gáskafullur og stuðvænn. Snilld! Tekist er á við sígild lög eins og „Úti er alltaf að snjóa“ og „Jólakötturinn“ en einnig eru hér lög sem ég þekki minna. Allt er þó með sama brag og rennslið út plötuna er fumlaust. Verðug viðbót í jólaplötugalleríið og vel að verki staðið!

Tengdar fréttir

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Tónlist

Einlægt og ástríðufullt

Popptónlist

Einlægt og ágengt