Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jólalög Vaughan Williams fyrir enska hermenn á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: Leo Leibovici - Flickr

Jólalög Vaughan Williams fyrir enska hermenn á Íslandi

11.12.2019 - 16:00

Höfundar

Ralph Vaughan Williams þykir vera eitt merkasta tónskáld Englendinga á 20. öld. Árið 1941 útsetti hann níu jólalög fyrir breska setuliðið á Íslandi. Stutt er síðan lagaflokkurinn var hljóðritaður í heild í fyrsta skipti.

Sagði frá útsetningunum í bréfi í desember 1941
Ralph Vaughan Williams fæddist árið 1872 og lést 1958. Hann samdi tónverk af ýmsum toga, svo sem óperur, kórverk og níu sinfóníur. Þjóðlög voru Vaughan Williams mjög kær, hann safnaði þjóðlögum, útsetti þau og notaði stundum í verk sín. Í desember 1941 skrifaði Vaughan Williams tónskáldinu Michael Tippett að hann væri nýbúinn að útsetja jólalög fyrir bresku hermennina á Íslandi en Ísland var á þessum tíma hersetið af Bretum svo sem kunnugt er. Á síðastliðnu ári, 2018, voru þessar útsetningar Vaughan Williams hljóðritaðar í heild í fyrsta skipti og gefnar út á geislaplötu.

Níu jólalög
Jólalögin sem Vaughan Williams útsetti fyrir setuliðið á Íslandi eru 9 talsins og útsett fyrir karlakór því vafalaust hefur kór hermanna sungið þau.

Þetta eru lögin: God rest you merry, gentlemen, As Joseph was a-walking, Mummers Carol, The first Nowell, The Lord at first, Coventry Carol, I saw three ships, A virgin most pure og Dives and Lazarus.

Það virðist ekki hafa vakið mikla athygli á Íslandi árið 1941 þótt þar væru frumfluttar nýjar útsetningar eftir eitt þekktasta tónskáld Breta, að minnsta kosti er ekki að sjá að þess hafi verið getið í blöðum.

„Systrum“ breytt í „bræður“
Einn söngvanna, Coventry Carol (Jólalagið frá Coventry), hefst á orðunum „Lullay thou little tiny child“ (Lúllubía, litla barn). Söngurinn er frá 15. öld og fjallar um barnamorðin sem Heródes konungur lét fremja þegar hann ætlaði að láta myrða Jesúbarnið. Í textanum segir „O sisters too, how may we do“ (Ó, systur, hvað eigum við að gera), en í þessari útsetningu Vaughan Williams er orðinu „systur“ breytt í „bræður“, „brothers“, vafalaust af því að hermenn áttu að syngja sönginn.

Mynd: Stytta af Vaughan Williams í Dorking í Surrey.

Jólalagaútsetningar Vaughan Williams verða fluttar í þættinum "Á tónsviðinu" fimmtudag 12. desember kl. 14.03.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Akhnaten eftir Philip Glass í Metropolitan-óperunni

Klassísk tónlist

Dísella í beinni útsendingu frá Metropolitan