Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Jöklarnir horfnir eftir 200 ár

30.08.2012 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslenskir jöklar verða horfnir eftir 150 til 200 ár verði veðurfar svipað og það hefur verið síðustu tvo áratugi. Snæfellsjökull hyrfi eftir um það bil 30 ár. Þetta segir Helgi Björnsson jöklafræðingur.

„Síðustu 17 ár hafa jöklarnir bráðnað með auknum hraða. Umskiptin voru í kringum árið 1995. Þetta gerist hraðar en menn töldu og fólk er í raun hissa hvert einasta ár því þetta gerist æ hraðar," sagði Helgi Björnsson í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Helgi segir að Snæfellsjökull sé aðeins 30 metrar að þykkt að meðaltali, en að vísu sé meiri snjór í honum að norðanverðu, allt að 70 metra þykkur. Jökullinn þoli ekki þessa bráðnun í mörg ár. 

Þolir ekki marga áratugi

„Hann rýrnar að meðaltali um 1,3 metra á ári, þannig að það er auðséð að hann þolir ekki slíkt framhald í marga áratugi. Við missum um það bil einn metra á ári af Vatnajökli, annað eins af Hofsjökli, 1,3 metra af Langjökli, en allra mest af jöklunum syðst, Eyjafjallajökli og þessum litlu jöklum sunnanlands. Þar er bráðnuni 1,8 metrar, svipað og meðal mannshæð. Nú er reiknað með að það hlýni enn frekar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa og það gæti orðið tveimur gráðum hlýrra við lok þessarar aldar heldur en nú er. Niðurstaðan samkvæmt líkanreikningum, sem eru reyndar byggðir á ótal mælingum, að jöklarnir verði horfnir eftir 150 til 200 ár."