Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Jóhanna Sigurðardóttir hættir

27.09.2012 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Jóhanna Sigurðardóttir ætlar að hætta sem formaður Samfylkingarinnar eftir þetta kjörtímabil og um leið láta af þátttöku í stjórnmálum. Þetta kemur fram í bréfi sem Jóhanna sendi félögum í Samfylkingunni í dag. Hún telur tímabært að aðrir taki við keflinu sem henni var falið í kjölfar hrunsins.

Í yfirlýsingunni kemur fram að Jóhanna hafi ætlað að hætta í stjórnmálum að loknu kjörtímabilinu 2007. Hún hafi þó hætt við það og sjá ekki eftir því. Hún segir að þau tæplega fjögur ár sem hún hafi verið forsætisráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar - Grænt framboð hafi verið átakamikil og þung í skauti fyrir sig og alla þjóðina en einnig gefandi.

Jóhanna skrifar í bréfi sínu að allt hafi sinn tíma, líka tími sinn í stjórnmálum og því telur hún nú tímabært aðrir taki við keflinu sem henni hafi verið falið í kjölfar hrunsins.„Að loknu þessu kjörtímabili hef ég því ákveðið að láta af þátttöku í stjórnmálum,“skrifar Jóhanna.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur setið á Alþingi síðan 1978. Hún var þá kjörin á þing fyrir Alþýðuflokkinn, sem vann frækinn sigur í kosningunum það ár og bætti við sig 9 þingmönnum. Hún var varaformaður Alþýðuflokksins 1984-1993 en árið 1995 stofnaði hún Þjóðvaka og varð formaður þess flokks. Hún sat á þingi fyrir Þjóðvaka frá 1995-2000 þegar nokkrir flokkar runnu saman og Samfylkingin var stofnuð. Árið 2009 varð hún formaður Samfylkingarinnar. Jóhanna gegndi embætti félagsmálaráðherra árin 1987 til 1994, fyrst í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar (1987-1988), svo í vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar (1988-1991) og loks í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar (1991-1994). Hún tók aftur við embætti félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Geirs Haarde 2007 til 2009 og hefur síðan 1. febrúar 2009 verið forsætisráðherra, fyrst kvenna.

Jóhanna hefur setið lengur á þingi en nokkur annar núverandi þingmaður, í rúm 34 ár. Við næstu alþingiskosningar hafa alls tólf þingmenn setið lengur en hún frá árinu 1875. Jóhanna verður sjötug þann 4.október, næstkomandi.