Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Jóhanna Fjóla sækir ein um embætti forstjóra HVE

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett
Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir er eini umsækjandinn um embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. Jóhanna Fjóla var sett forstjóri 2017 þegar Guðjón S. Brjánsson tók sæti á Alþingi.

Jóhanna Fjóla er hjúkrunarfræðingur og hefur starfað við HVE síðan stofnunin varð til 2010. Fyrst var hún framkvæmdastjóri hjúkrunar og rekstrar og verkefnisstjóri þróunar og gæðamála og svo settur forstjóri.

HVE veitir heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmi Vesturlands sem nær til 15 sveitarfélaga frá Hvalfjarðarsveit til Reykhólahrepps og norður í Árneshrepp og Húnaþing Vestra.

Umsóknarfrestur rann út 31. janúar og nú fer fram hefðbundið skipunarferli þar sem nefnd metur hæfni umsækjanda. Niðurstöðum nefndarinnar verður skilað til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem tekur endanlega ákvörðun um skipun í embættið til fimm ára.