Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Jóhann tilnefndur aftur til Óskarsverðlauna

14.01.2016 - 13:42
epa04556138 Johann Johannsson arrives for the 72nd Annual Golden Globe Awards at the Beverly Hilton Hotel, in Beverly Hills, California, USA, 11 January 2015.  EPA/PAUL BUCK
 Mynd: EPA
Jóhann Jóhannsson, tónskáld, var í dag tilnefndur til Óskarsverðlauna annað árið í röð, nú fyrir tónlist sína við kvikmyndina Sicario. Þetta var tilkynnt í Los Angeles nú rétt í þessu. Jóhann var tilnefndur til Óskarsverðlauna í fyrra fyrir kvikmyndina The Theory of Everything.

Jóhann hefur hlotið mikið lof fyrir tónlist sína í myndinnni - bæði hjá gagnrýnendum og líka frá leikurum myndarinnar. 

Sicario segir frá baráttu bandarískra yfirvalda gegn mexíkóskum glæpagengjum. Tónlist Jóhanns hefur verið lýst sem einni af aðalpersónu myndarinnar - hún skipti miklu máli til að draga fram spennuþrungið andrúmsloft.

Íslenskir áhugamenn voru ekki lengi að bregðast við fréttum af tilnefningu Jóhanns.

Mennirnir sem Jóhann etur kappi við eru engir aukavisar - Ennio Morricone er eitt þekktasta kvikmyndatónskáld sögunnar og hefur sex sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna, meðal annars fyrir The Mission og The Untouchables.

Í þessum hópi er einnig John Williams - hann á heiðurinn af stefinu í Star Wars, Indiana Jones, E.T og Superman, svo fátt eitt sé nefnt. Hann hefur fimm sinnum unnið til Óskarsverðlauna.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV