Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jemen: Fimm ár síðan afskipti Sáda hófust

26.03.2020 - 08:43
epa08290183 Yemeni women hold a child as they pass a destroyed building targeted by a previous Saudi-led airstrike, at a neighborhood in Sanaa, Yemen, 12 March 2020. According to reports, UN special envoy to Yemen Martin Griffiths made his brief at the UN Security Council on his recent diplomatic efforts to halt the recent military escalation between Saudi-backed Yemeni forces and Houthis, warning that the ongoing military action could undermine peace efforts. He called for an immediate end to military action in Yemen as the armed conflict enters its fifth year since the fighting broke out in March 2015 after the Houthis dissolved the Saudi-backed government.  EPA-EFE/YAHYA ARHAB
Mikil eyðilegging er eftir loftárásir á höfuðborgina Sanaa. Mynd: EPA-EFE - EPA
Fimm ár eru síðan Sádi-Arabía og fleiri ríki hófu afskipti af stríðinu í Jemen. Friður er ekki í augsýn, en stríðandi fylkingar hafa tekið vel í beiðni framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé á meðan kórónuveirufaraldurinn geisar.

Þann 26. mars árið 2015 hófu Sádi-Arabar og bandamenn þeirra loftárásir á bækistöðvar Hútífylkingarinnar í Jemen og vopnaðar sveitir sem fylgdu Ali Abdullah Saleh, fyrrverandi forseta landsins. 

Abdrabbuh Mansur Hadi, forseti alþjóðlega viðurkenndrar stjórnar í Jemen, hafði sent út hjálparbeiðni eftir að Hútífylkingin hafði náð höfuðborginni Sanaa og fleiri stöðum í landinu á sitt vald.

Þrátt fyrir umfangsmiklar loftárásir, landhernað og hafnbann hefur Sádi-Aröbum og bandalagsríkjum ekki tekist að yfirbuga Hútífylkinguna og allt er í hnút, ekki síst vegna klofnings í röðum andstæðinga Hútífylkingarinnar. Þar hafa talsmenn fyrir því að skipta landinu aftur í tvennt haft sig mikið í frammi.

Talið er að meira en 100.000 hafi fallið í stríðinu í Jemen margir þeirra almennir borgarar. Samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, World Food Programme, þurfa 24 milljónir landsmanna á aðstoð að halda.