Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Jeff Bezos er ríkasti maður heims

27.07.2017 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: Flickr.com - Steve Jurvetson
Eftir umtalsverða hækkun hlutabréfa fyrirtækisins Amazon í dag er Jeff Bezos, stofnandi fyrirtækisins, orðinn ríkasti maður heims. Bezos á um fimmtungshlut í Amazon, sem er metið á 500 milljarða bandaríkjadala, um 52.355 milljarða íslenskra króna.

BBC greinir frá þessu og segir í frétt þeirra að Bezos skjóti með því Bill Gates ref fyrir rass, en hann hefur verið metinn ríkasti maður heims undanfarin fjögur ár. Bezos er sagður eiga um 90,6 milljarða bandaríkjadala, um 9.500 milljarða króna.

Athygli Bezos hefur þó ekki beinst eingöngu að Amazon undanfarin ár, því hann stofnaði fyrir ekki löngu Blue Origin, sem beinir kröftum sínum að geimferðum auk þess sem hann keypti Washington Post. Blaðið kostaði hann um 250 milljón dollara, sem virðist ekki há fjárhæð þegar horft er til þess að hann selur hlutabréf í Amazon fyrir milljarð dollara á ári til að fjármagna Blue Origin.

Gunnar Dofri Ólafsson