Jay-Z og Beethoven á súkkulaðiplötu

Mynd: RÚV / RÚV

Jay-Z og Beethoven á súkkulaðiplötu

08.01.2020 - 10:17

Höfundar

Í jólamánuðinum voru gestir Norræna hússins minntir á ýmsar birtingarmyndir neyslumenningar á sýningunni Af stað!, sem stendur fram yfir næstu helgi.

Af stað! er samsýning 13 myndlistarmanna sem allir tækla viðfangsefnið neyslumenning og áhrif hennar á lifnaðarhætti með sínu nefi. Samhliða eru haldnir vikulegir viðburðir af ýmsum toga undir yfirskriftinni Jamm, Namm, Sko, Oh. Sýningarstjórar eru Agnes Ársælsdóttir og Anna Andrea Winther. Að sögn Önnu Andreu beina flestir þátttakendur sjónum inn á við. „Þessi verk eiga það sameiginlegt að vera að mjög ólíku leyti að kljást við hugmyndina um neyslumenningu og það sem okkur finnst spennandi við þau er að í staðinn fyrir að  horfa ásakandi á áhorfandann þá horfa mörg verkin rosa mikið inn á við, byggja á rannsóknarvinnu og horfa á ólíka króka og kima af neyslumenningu.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Agnes Ársælsdóttir og Anna Andrea Winther

„Listamennirnir eru ýmist nýútskrifaðir eða enn í námi, frá ýmsum þjóðernum en hafa öll einhvers konar tengingu við Ísland,“ segir Agnes. Þátttakendur í sýningunni eru Andreas Brunner, Ágústa Gunnarsdóttir, Birkir Mar Hjaltested, Gréta Jónsdóttir, Helena Margrét Jónsdóttir, Hillevi Högström, Hugo Llanes, Kristín Helga Ríkharðsdóttir, Kristín Karólína Helgadóttir, Leena Saarinen, Patricia Carolina, Sólbjört Vera Ómarsdóttir og Vala Sigþrúðar Jónsdóttir.

Suðusúkkulaði Jay-Z

Meðal þess sem ber fyrir augu og eyru gesta er verkið I heard you sweet voice singing eftir Andreas Brunner, þar sem níunda sinfónía Beethovens og 99 vandamál Jay-Z steypt eru í súkkulaði.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Súkkulaðibræðingur Beethovems og Jay-Z settur á fóninn.

Viðburðaröðin er fjölbreytt og einkennist af frumlegri nálgun á efnið. „Til dæmis hefur Sólbjört Vera Ómarsdóttir verið með brunch hérna alla sunnudaga desembermánaðar þar sem hún býður fólki að koma og snæða með sér og er með livestream á meðan þar sem áhorfendur heima fyrir geta líka fengið að taka þátt í matarboðinu,“ segir Agnes. „Svo voru verk eftir finnsku myndlistarkonuna Leenu Saarinen, hljóðverk inni á öllum klósettunum í Norræna húsinu þar sem hún er með hljóð frá fuglum sem hafa dáið út á seinasta áratug. Það ómar um húsið,“ segir Anna Andrea.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jólin eru hátíð mikillar neyslu og áts.

Að sögn Agnesar var skilaboðum um óhóf í neyslumenningu samtímans síst illa tekið i jólamánuðinum. „Ég held að þetta hafi einmitt verið þörf áminning og við eiginlega gátum ekki stýrt heilli sýningu yfir allan desember án þess að taka þetta fyrir. Þannig að þetta umfjöllunarefni varð eiginlega eins og flís við rass.“

Einn viðburður er eftir, en þann 12. janúar flytur norska listakonan Hege Tapio fyrirlestur um verk sitt, Human fuel, þar sem hún tók fitu úr sínum eigin líkama og breytti í eldsneyti.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Tengdar fréttir

Myndlist

Krotað og krassað út um allar trissur

Myndlist

Myndlist af mörkuðum í jólapakkana

Myndlist

Heimildarmynd um Magnús Pálsson frumsýnd á jóladag

Myndlist

Vilja vera með læti í snjóhvítu rými