Jarðsprengja banaði níu börnum á leið í skóla

03.11.2019 - 05:26
epa07692033 Afghan security officials and private military patrol on Lashkargah-Kandahar Highway, also known as 601 Highway, after reports that Taliban have taken control of parts of the highway, in Helmand, Afghanistan, 03 July 2019. according to media reports, After nearly 17 years of armed conflict, the government in Kabul controls around 55 percent of the total territory of Afghanistan while the Taliban control around 11 percent, with the rest being disputed.  EPA-EFE/WATAN YAR
Afganskir stjórnarhermenn á eftirlitsferð  Mynd: EPA-EFE - EPA
Níu börn fórust þegar sprengja sprakk við vegkant í norðaustanverðu Afganistan, þar sem þau voru fótgangandi á leið í skólann. Börnin, átta drengir og ein stúlka, voru á aldrinum sjö til tíu ára. Svo virðist sem eitthvert þeirra hafi stigið á jarðsprengju, sem stjórnvöld fullyrða að komið hafi verið fyrir vísvitandi í vegkantinum. Enginn hefur lýst ódæðinu á hendur sér.

Talsmaður héraðsstjóra Takhar-héraðs, þar sem árásin var gerð, lét að því liggja í tilkynningu sinni að talibanar hefðu verið að verki. Talibanar náðu yfirráðum í héraðinu fyrir nokkru síðan og héldu þeim í nokkrar vikur, en voru hraktir þaðan á brott af stjórnarhernum fyrir skemmstu. Þeir koma iðulega fjölda jarðsprengja fyrir við vegkanta á svæðum sem þeir neyðast til að yfirgefa, til að hamla sókn stjórnarhersins.

Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna, sem birt var í október, kom fram að 1.174 óbreyttir borgarar létu lífið í átökum, árásum og hryðjuverkum á þriðja ársfjórðungi þessa árs, það er að segja frá júlíbyrjun til septemberloka. Yfir 3.000 manns særðust á þessu sama tímabili. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi