Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Jarðhræringar gætu verið undanfari eldgoss

Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Ragnarsson - RÚV
Jarðhræringar í Öræfajökli þarf að taka alvarlega, segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur. Þær gætu verið undanfari eldgoss. Þær getu þó vissulega fjarað út. Atburðarásinni nú svipi til undanfara Eyjafjallajökulsgossins, 2010.

Aukin jarðskjálftavirkni hófst í Öræfajökli í byrjun árs 2016 og hefur aukist, sérstaklega frá því í mars á þessu ári. Á föstudag fór svo að bera á lykt frá Kvíá, sem á upptök sín undir jöklinum og sigketill sást á jöklinum. Ekki er vitað hve langan tíma það hefur tekið ketilinn að myndast en hann bendir til þess að mikil jarðhitavirkni sé í öskju Öræfajökuls.

„Ástæða þess að það verður til þessi sigketill er sá að sá jarðhiti hefur orðið til í sumar eða haust eða á undanförnum misserum, hugsanlega síðustu viku, og þarna er komið af stað nokkuð öflugt jarðhitasvæði inni í miðri öskju Öræfajökuls og það er áhyggjuefni þegar við horfum á þetta í því samhengi,“ segir Magnús Tumi.

Þetta gæti verið forboði þess að það gjósi einhvern tímann þarna á næstunni, á næstu mánuðum eða næstu árum:  „Það er ómögulegt að segja á þessum tímapunkti.“

Magnús Tumi segir að atburðarásinni svipi til undanfara Eyjafjallajökulsgossins. Fyrstu merki um gos í honum komu fram 16 árum áður en gaus.

„Hvort það á við um Öræfajökul vitum við ekki, vitum ekkert hvort að þessi atburðarrás hætti löngu áður en að til goss kemur en við verðum náttúrulega að vera viðbúin því að þetta endi með gosi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Ragnarsson - RÚV
Sigketillinn á toppi Öræfajökuls, Hvannadalshnjúkur í baksýn.

Líkur á hamfarahlaupi samfara gosi

Gjósi í Öræfajökli er þrennt sem gæti gerst: Það gæti orðið sprungugos í hlíðum fjallsins, þar sem ísinn er þunnur. Það gæti gosið innan öskjunnar og það gæti orðið bráðnun vegna gjóskuflóða í stórgosi, svipuðu og varð 1362. 

Gjósi í öskjunni sjálfri er gert ráð fyrir að stórflóð fylgi, með hámarksrennsli um 100 þúsund rúmmetrum á sekúndu en það er ríflega tvöfalt meira en í flóðinu í Gjálpargosinu 1996.

Gjósi í vestanverðri öskjunni, gæti vatnið til dæmis hlaupið niður Virkisjökul og Falljökul og sett byggð í hættu. Þá gæti gos í vestanverðri öskjunni orðið á jöklasvæði Kotárjökuls, slíkt flóð setti líka byggð í hættu. Í báðum tilfellum færi flóðið yfir þjóðveginn.

Þá gæti gosið í austanverðri öskjunni, í Kvíárjökli, en sigketillinn sem uppgötvaðist á föstudag er þar. Þá hlypi flóðið niður jökulinn. Minnst hætta er af slíku hamfaraflóði. 

Gjósi í hlíðum fjallsins verða hlaupin mun minni eða um 10.000 rúmmetrar á sekúndu.

Þriðji möguleikinn er að það verði bráðnum vegna gjóskuflóða eða gusthlaupa, svipað og varð 1362. Gusthlaup eru hlaup sem koma úr eldgosum en renna ekki eftir jörðinni heldur þjóta gegnum loftið. Litlar líkur eru hins vegar á slíkum hörmungum, segir Magnús Tumi.

Flest gos í jöklinum lítil

„Ef við skoðum síðustu 8.000 árin þá eru nokkur þá eru þetta ekkert mjög mörg gos en þau eru svona á bilinu 10-15 kannski þau eru flest lítil, þau eru mörg súr, en ekki stór og líkjast kannski að einhverju leyti Eyjafjallajökulsgosinu eða minna en það.“

Magnús Tumi segir að ekki sé talið að eldgos sé yfirvofandi en „þetta gæti hins vegar verið byrjun á ferli sem endaði með eldgosi og hversu langan tíma það tekur er mjög erfitt að segja.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Ragnarsson - RÚV