Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Jarðgöng tengi höfnina við Bakka

08.08.2012 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Húsvíkingar vilja að grafin verði jarðgöng, sem tengi Húsavíkurhöfn við iðnaðarsvæðið á Bakka. Formaður bæjarráðs Norðurþings segir hefðbundna vegagerð dýra og þess vegna séu jarðgöng hagkvæmur kostur.

Tvö erlend fyrirtæki hafa þegar samið um raforku vegna starfrækslu kísilmálmverksmiðja á Bakka, næsta skref er að semja við þessi fyriræki um lóðir á Bakka og hafnaraðstöðu á Húsavík. Áætlað er að þessi tvö fyrirtæki flytji út samtals um eina milljón tonna af hráefni á ári. Greiðar samgöngur á milli Bakka og Húsavíkurhafnar eru því mikilvægar. Heimamenn vilja að gerð verði jarðgöng, frá höfinni yfir í Laugardalinn, sem er skammt frá Bakkasvæðinu.

„Það stóð náttúrulega alltaf til að koma með vegtengingu þarna á milli og þegar maður fór að skoða það , þá þarf að fara með svo miklar skerðingar inn í höfðann, sú framkvæmd er bara mjög dýr. Það kemur í ljos að göng eru bara litlu dýrari kostur og í rauninni miklu umhverfisvænni, það er miklu minni hljoðmengun og minna umhverfisrask," segir Jón Helgi Björnsson, formaður bæjarráðs Norðurþings.

Ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið að leggja tólf milljónir króna í rannsóknarboranir á svæðinu. Húsvíkingar segja nauðsynlegt að hafist verði handa  sem fyrst. Fyrirhuð göng verða einn kílómetri að lengd. „Við teljum að það sé ríkið sem eigi að borga göngin og vegtengingu á milli hafnar og iðnaðarsvæðisins, það sé þess verkefni," segir hann.