Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Jarðeldarnir minnka hratt

01.09.2014 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Mjög hefur dregið úr jarðeldunum í Holuhrauni, norðan Vatnajökuls, og útlit er fyrir að gosinu ljúki á næstu dögum. Þetta er mat jarðvísindamanna á staðnum.

Eldgosið hefur staðið í hátt í einn og hálfan sólarhring. Sprungan er talin hafa verið allt að 1800 metra löng þegar mest var og hraun þeyttist 50 og á stundum hátt í 100 metra upp í loftið.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur fór að eldstöðinni í morgun og var staddur við gossprunguna í hádeginu þegar fréttastofa náði tali af honum. Hann segir að mjög hafi dregið úr virkninni, gosið sé ekki nema hálfdrættingur á við það sem var í gær. Hann segir að sama sem engin virkni sé í suðurhluta sprungunnar. „Það er norðurhlutinn sem er virkur og strókarnir eru bara lágir,“ segir Ármann. Hann telur að gosstrókarnir séu nú um 10 til 20 metra háir.

Hann telur að gosið sé að fjara út. „Já, ef þetta heldur svona áfram. Það hefur verið töluverð breyting frá því við komum þannig að það virðist vera að draga heldur úr því,“ segir Ármann. „Því lýkur á næstu dögum, klárlega, miðað við hvað er að gerast núna.“