Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jarðarvinir í hart vegna skýrslu um hreinkálfa

29.10.2019 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Samtökin Jarðarvinir hafa kært Náttúrustofu Austurlands fyrir vanrækslu við rannsókn á vetrarafkomu hreinkálfa. Hefði rannsókninni lokið í tíma hefði hún mögulega haft áhrif á fyrirkomulag veiðanna, og minnkað þjáningar móðurlausra hreinkálfa. Náttúrustofan segir að engin formleg krafa hafi verið gerð um skil áður en veiðar hæfust.

Jarðarvinir hafa barist fyrir því að veiðitíma verði seinkað þannig að hreinkýr séu ekki felldar frá ungum kálfum. Móðurlausir kálfar komist síður í æti yfir veturinn, þar sem þeir fái ekki að nýta krafsholur sem móðirin geri í snjó. Samtökin vísa í lög um dýravelferð sem banna það að yfirgefa dýr í bjargarlausu ástandi og kveða á um að koma skuli í veg fyrir meðal annars hungur og þjáningu dýra og tryggja eðlilegt atferli.

Eftir umræðu um málið fól umhverfisráðherra Náttúrustofu Austurlands að rannsaka afkomu kálfa að vetri. Jarðarvinir telja að Náttúrustofunni hafi borið að ljúka rannsókninni fyrir veiðitímabilið sem hófst 1. ágúst síðastliðinn. Fjórtán dögum áður en veiðar hófust sendi náttúrstofan minnisblað með frumniðurstöðum. Þar kom fram að talningar bentu til að meðaldánartíðni kálfa yfir veturinn gæti verið 21%. Þrátt fyrir það, segir í minnisblaðinu, bendir ekkert enn til þess að munaðarlausir kálfar geti ekki bjargað sér og lifað af veturinn. Hins vegar sé hætt við að þeir falli frekar en kálfar sem fylgja mæðrum í hörðum vetrum. Slíkt hafi þó líklega ekki gerst síðustu áratugi að neinu ráði nema mjög staðbundið einu sinni. Hreindýrum hafi fjölgað síðustu tvo áratugi og líkamlegt ástand þeirra sé gott þrátt fyrir móðurlausa kálfa eftir veiðitíma.

Að mati Jarðarvina átti vísbending um að fimmti hver kálfur dræpist að gefa tilefni til að endurskoða veiðarnar í haust. En skýrslan var ekki tilbúin og veiðifyrirkomulaginu var ekki breytt. Kristín Ágústsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofunnar, segir að ekki hafi verið gert ráð fyrir að skýrslunni yrði skilað áður en veiði hæfist. „En á síðari stigum komu fram óskir um, óformlegar óskir um að við myndum skila henni mögulega fyrr og við reyndum alveg að gera það, við tókum alveg vel í það en það tókst ekki,“ segir Kristín.

Í skýrslunni sem kemur út á næstu dögum verði skoðað hvort eitthvað í gögnum geti sýnt fram á óeðlilegan kálfadauða í íslensku hjörðinni. Gögn um kálfadauða séu borin saman við tölur frá þeim tíma þegar kálfar voru veiddir með mæðrum sínum.

Leiðsögumenn með hreindýraveiðum hafa lagst gegn því að veiðunum verði seinkað og bent á að aðeins hluti þeirra hreinkúa sem felldar eru fyrst á veiðitíma séu með kálf. Á þeim tíma séu feldkýr séu vænni bráð.