Jarðarkaup á Íslandi langtímafjárfesting

24.04.2013 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Kínverski auðjöfurinn Huang Nubo, sem vildi kaupa Grímsstaði á Fjöllum, segir jarðakaup á Íslandi langtíma fjárfestingu. Innan áratugar hafi ísinn á Norðurpólnum bráðnað og siglingaleiðir verði opnar. Þá hækki landareignir á Íslandi í verði.

Huang Nubo situr árlegan fund Félags kínverskra athafnamanna þar sem rætt er við forvígismenn umhverfisvænna fyrirtækja. Fréttastöðin CNBC náði þar tali af honum. Í viðtalinu segir Huang Nubo að fyrirtæki hans, Zhongkun Investment Group, horfi helst til þess að fjárfesta á heimamarkaði. Rætt var um áform hans um að fjárfesta á Íslandi. Hann segir að margir hafi spurt af hverju Kínverji vildi fjárfesta svo langt frá heimahögunum og kaupa land á Íslandi. Fjárfestingarsaga fyrirtækisins í Kína sýndi hins vegar að oft hefði það keypt land á afskekktum stöðum, svo sem í Yunnan-héraði eða Xinjian-héraði. Eignirnar þar væru afskekktar en nú væru þær einhverjar þær verðmætustu á þessum svæðum.

Huang sagði marga telja Ísland mjög afskekkt en ef horft væri fram í tímann, um áratug eða svo, og ef ísbreiðan á Norðurpólnum bráðnaði, yrði land á Íslandi mjög verðmætt því siglingaleiðin um Norðuríshaf til Evrópu verði opin og liggi við Ísland. Þá verði þrjú hundruð ferkílómetra landsvæði mjög ábatasöm eign fyrir hann. Ólíkt mörgum fyrirtækjum í ríkiseigu, sem hugsi til skamms tíma, þá geti einkafyrirtæki eins og það sem hann rekur fjárfest til lengri tíma.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi