Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Jarðakaup: Hefur áhyggjur af skorti á yfirsýn

08.08.2019 - 19:42
Mynd: RÚV - Gunnlaugur Starri Gylfaso / RÚV - Gunnlaugur Starri Gylfaso
Ástæða er til að gera breytingar á lögum um kaup auðmanna á bújörðum hér á landi, að mati Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. Þær breytingar gætu til dæmis snúið að reglum um kaup aðila utan EES-svæðisins og hvaða skilyrði slíkar fjárfestingar þurfi að uppfylla. Ríkisstjórnin kom saman til fundar við Mývatn í dag ræddi þessi mál.

„Þegar spurt er um eignakaup auðmanna þá má spyrja á móti hvort menn séu að tala um erlenda eða innlenda auðmenn. Til hvers eru menn í raun og veru að vísa? Eru menn að tala um eignasöfnun eða eru menn að tala um það þegar einstaka auðlindamiklum jörðum er kippt úr búrekstri,“ spyr fjármálaráðherra. 

Fyrst þurfi að svara því hvert nákvæmlega vandamálið sé áður en ákveðið er til hvaða úrræða er gripið, að sögn Bjarna. „Menn verða að svara því fyrst hvert er vandamálið sem menn hafa áhyggjur af og ég get sagt fyrir mitt leyti að ég hef vissar áhyggjur af því að við höfum ekki góða yfirsýn. Ég hef áhyggjur af því ef við erum galopin fyrir mjög miklum fjárfestingum erlendra aðila utan EES-svæðisins sem geta komið hingað hindrunarlaust nánast. Nema við skýrum betur leikreglurnar.“ Það geti verið áhyggjuefni til lengri tíma að sóst sé eftir auðlindum. Það þurfi ekki að gerast í einum viðskiptum. „Ef við hugum ekki að því máli í tíma þá getur það verið þróun sem að gengur allt í einu einn góðan veðurdag of langt.“

Bjarni segir að jarðakaupin séu mjög mikilvægur málaflokkur sem þurfi að skoða. Hann sé þó ekki tilbúinn til að segja nákvæmlega hvernig eigi að grípa inn í og það hafi þau einmitt rætt um á fundinum í dag.