Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Japanska sjónvarpið rannsakar orminn

15.09.2015 - 14:31
Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson / Tilraunir japanska sjónvarpsins
Mynd: RÚV / RÚV
Mynd:  / 
„Það er verið að reyna að komast að því hvort ég falsaði þetta; hafi sett þetta á svið. Reyna að sýna fram á það að ég hafi haft Íslendinga og allan heiminn að fífli með því að þykjast hafa tekið mynd af orminum,“ segir Hjörtur Kjerúlf, bóndi á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal.

Þáttagerðarfólk frá Japanska ríkissjónvarpinu hefur undanfarna daga framkvæmt tilraunir úti í Lagarfljóti neðan við Hrafnkelstaði. Meðal annars reynt að endurgera fyrirbæri það sem Hjörtur Kjerúlf sá og kvikmyndaði í tvígang í ferbúar og mars 2012.

Myndbandið hefur notið mikilla vinsælda um allan heim og laðað að kvikmyndatökulið frá mörgum löndum. Eftir að myndbandið var birt á Youtube hefur það verið spilað meira en 5 milljón sinnum. Engir hafa þó gengið eins langt og þáttagerðarmenn Fact or Faked: Paranormal Files frá Bandaríkjunum sem komu með fyrrum FBI fulltrúa til að rannsaka orminn og myndbandið. Hægt er að horfa á þann þátt hér.

Fljótsdalshérað setti á laggirnar sannleiksnefnd til að meta hvort Hjörtur ætti tilkall til 500 þúsund króna verðlaunafjár sem heitið var hverjum þeim sem næði mynd af Lagarfljótsorminum. Meirihluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að myndbandið staðfesti tilvist ormisins. Fréttir af sannleiksnefndinn urðu til þess að enn fleiri fengu áhuga á orminum. 

Madoka Adachihara stýrir þáttagerð Japanska ríkisstjórnvarpsins um orminn. Hún segir myndband Hjartar mjög vinsælt þar í landi og útskýrir áhuga Japana með því að myndbandið sé með þeim trúverðugustu sem náðst hafi af vatnaskrímsli. Hún og tökulið hennar hafa undanfarna daga rætt við fjölmarga íbúa við Lagarfljót.

Hér að ofan má sjá myndband af aðförum japanska ríkissjónvarpsins, viðtal við Hjört Kjerúlf, Madoka Adachihara, og Frosta Friðriksson einn af aðstoðarmönnum hennar.