Janúar 2020 var sá hlýjasti frá upphafi mælinga

Mynd með færslu
Því dekkri sem litirnir eru, þeim mun meira er frávikið frá meðaljanúar 1981 - 2010. Rauður = hlýrra en í meðalmánuði, blár = kaldara en í meðalmánuði.  Mynd: Copernicus
Nýliðinn janúarmánuður var sá hlýjasti á Jörðinni frá því mælingar hófust og mun hlýrri en meðaljanúar á viðmiðunartímabilinu 1981- 2010. Þó lét veðurfyrirbærið El Niño ekkert á sér kræla nú, öfugt við 2016, þegar fyrra janúarmet leit dagsins ljós. Þetta eru niðurstöður evrópsku loftslagsrannsóknastofnunarinnar Copernicus.

6 gráðum hlýrri en meðaljanúar á sumum svæðum

Á heimsvísu var janúarmánuður einungis 0,03 gráðum hlýrri en á fyrra metári, 2016, en næstum 0,8 gráðum hlýrri en meðaljanúarinn á viðmiðunartímablinu. Í Evrópu var hann 0,2 gráðum hærri en janúar 2007, sem átti gamla Evrópumetið í janúarhlýindum, og heilli 3.1 gráðu hlýrri en meðaljanúarinn á árunum 1981 - 2010.

Á stórum svæðum í Norður- og Norðaustur-Evrópu, meðal annars í Noregi og á og undan austurströnd Grænlands, var hitinn um og yfir 6 gráðum hærri en í meðalári á þessi viðmiðunartímabili.

Sumstaðar í heiminum var hitinn aðeins og jafnvel talsvert undir meðaltali, svo sem á Svalbarða, í norðvesturríkjum Bandaríkjanna og Kanada, á vestanverðu Grænlandi og nokkrum stöðum í Suður-Evrópu og Suðurskautslandinu svo eitthvað sé nefnt.

Enginn El Niño - sem gerir þetta enn óvenjulegra

Rasmus Benestad, sérfræðingur á norsku veðurstofunni, segir þessi tíðindi vera nokkuð sem hann og kollegar hans hafi hvort tveggja reiknað með og óttast. Þótt munurinn á heimsvísu sé aðeins 0,03 gráður, segir hann, þá sé þar með ekki öll sagan sögð. Oft hafi komið hlýir janúarmánuðir, svo sem 1998 og 2016, segir Benestad, en munurinn er sá að það voru „El Niño-ár."

El Niño er veðurfyribæri með óvenju miklum hlýindaskeiðum og hitatoppum sem rekja má til þess að staðvinda yfir Kyrrahafinu lægir með þeim afleiðingum að sjórinn hlýnar sem aftur veldur hækkun yfirborðshita. Í ár er hins vegar enginn El Niño að kynda undir hlýnunni. „Þetta hefur ekki gerst áður," segir Benestad í frétt NRK. „Nú eru mikil hlýindi þrátt fyrir að við höfum ekki þessa miklu hitatoppa. Það er svolítið niðurdrepandi.“

Helstu niðurstöður

Meðalyfirborðshiti á Jörðinni í janúar síðastliðnum var töluvert hærri en í meðalári. Janúar 2020 var:

  • 0,77 gráðum hlýrri en meðaljanúar á tímabilinu 1981 - 2010
  • örlítið hlýrri (0,02°C) en janúar 2016, sem áður var sá hlýjasti í sögu veðurmælinga 
  • nær 0,2 gráðum hlýrri en janúar 2017, sem þar með er orðinn þriðji hlýjasti janúar frá upphafi mælinga
  • fjær meðalhita en nokkrir mánuðir sem sögur fara af, að febrúar og mars 2016 frátöldum

Í Evrópu eru sveiflurnar venjulega meiri en á heimsvísu, sérstaklega á vetrum. Evrópski meðalhitinn var sérlega hár í janúar 2020, sem var:

  • 3,1 gráðu hlýrri en meðaljanúar á tímabilinu 1981 - 2010
  • 0,2 gráðum hlýrri en janúar 2007, sem þar til nú var hlýjasti janúar í evrópskri veðurmælingasögu

Hægt er að kynna sér niðurstöður Copernicus nánar með því að smella á þennan hlekk. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi