Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Jákvæðni í garð sameiningar en líka ótti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Íbúar á Borgarfirði eystra, Djúpavogi, Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði kjósa á morgun um sameiningu sveitarfélaganna. Flestir sem fréttastofa ræddi við voru jákvæðir í garð sameiningar en sumir óttast að minni staðir verði áhrifalitlir eftir sameiningu.

„Í upphafi þegar nefndin hóf störf fyrir rúmu ári síðan þá var ég frekar svartsýnn. Sá ekki augljósa kosti fyrir minni sveitarfélög eins og Seyðisfjörð en ég held að það sé farið að horfa til betri vegar og mér líst vel á þessa greiningarvinnu sem hefur farið fram á þessu ári og þetta lítur bara held ég þokkalega út,“ segir Elvar Sær Kristjánsson, en hann er oddviti sjálfstæðismanna á Seyðisfirði og á sæti í samstarfsnefnd um sameininguna.

Á bænum Jökulsá á Borgarfirði eystra búa hjónin Katrín Guðmundsdóttir og Þorsteinn Kristjánsson. „Mér líst bara nokkuð vel á það ég held að þetta muni verða hagstætt fyrir okkur Borgfirðinga,“ segir Katrín. „Ég vil nú halda því fram að það hafi verið mjög vel unnið að undirbúningi þessarar sameiningar. Það gerir mig bjartsýnni á árangurinn af þessu,“ segir Þorsteinn.

Í Menntaskólanum á Egilsstöðum stundar nám Fanný Dröfn Emilsdóttir frá Djúpavogi. „Við fengum einmitt kynningu bara núna í menntaskólanum um daginn og þetta hljómaði mjög vel og ég finn fyrir bara jákvæðni með þessu,“ segir Fanný.

Í sameinuðu sveitarfélagi yrðu næstum 4900 íbúar. Í aðdraganda kosninganna hefur komið fram að skuldastaðan er mjög misjöfn og skuldir á íbúa mun hærri á Fljótsdalshéraði en á Djúpavogi og Borgarfirði. Bent hefur verið á að fjárfestingaþörf sé líka misjöfn, hún sé lítil á hvern íbúa á Fljótsdalshéraði. Þegar þetta tvennt er lagt saman er auðveldara að bera saman stöðuna. Á íbúafundum hefur komið fram andstaða við þessa sameiningu. „Ég hefði viljað fara alla leið og sameina allt Austurland. Bara fulla ferð á þetta og hérna í Djúpavogshreppi eru tvö stærstu fyrirtækin í mikilli samvinnu við Fjarðabyggð,“ sagði Björgvin Gunnarsson, kúabóndi í Berufirði í Djúpavogshreppi, þegar við hittum hann á íbúafundi á Djúpavogi fyrir nokkru.

Á Djúpavogi hefur lögheimili Guðný Jónsdóttir en hún býr á Egilsstöðum. Hún vildi helst að sameiningin hefði gengið í gegn fyrir löngu. „Þessi litlu sveitarfélög þau ráða ekki við alla þá þjónustu sem þau þurfa að veita í dag. Svo eru það náttúrulega samgöngurnar, það er vonandi að þær lagist,“ segir hún.

„Það sem flestir óttast og þar á meðal ég er að minni sveitarfélögin verði út undan. Dragist hægt og sígandi úr stjórnsýslunni úr nefndarstörfum og bæjarstjórninni, það er það sem ég óttast,“ segir Elvar Snær. Þorsteinn á Jökulsá telur að sameiningarnefndin hafi séð við þessu. „Þessar heimastjórnir sem er nýmæli sem er áformað í þessari sameiningu okkar. Þá eiga þær að bæta talsvert úr í þessu efni,“ segir Þorsteinn. Elvar Snær sem þó styður sameininguna virðist þó ekki fullviss um að heimastjórnir tryggi öll þau völd sem íbúar minni kjarna vilji hafa. Heimastjórnir eiga fyrst og fremst að ráða yfir deiliskipulagi og menningarstyrkjum meðal annars. „Þetta er ákveðið tilraunaverkefni sem á bara eftir að koma í ljós. Það er bundið í átta ár þannig að ég hef ekki trú á því að það leysi allan þann ótta sem fólk hefur,“ segir Elvar Snær.

Jóhanna Sigmarsdóttir, prestur á eftirlaunum, býr á Egilsstöðum. „Ég sé ekkert nema bara gott. Vonandi fáum við betri vegi um þetta svæði og meira samfélag og meiri samgöngur,“ segir Jóhanna.

Hægt er að kynna sér spurningar og svör um sameiningarkosninguna á svausturland.is